ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

kári / knattspyrna

1. gr.

Nafn félagsin er Knattspyrnufélagið Kári. Aðsetur þess er á Akranesi.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að iðka knattspyrnu. Markmið félagsins er að efla enn frekar áhuga og iðkunn á knattspyrnu á Akranesi og gera
fleirum kleift að stunda keppni eða leiki í þessari grein.

3. gr.

Öllum er heimill aðgangur í félagið. Félagið er myndað af þeim er skráðir eru í félagið hverju sinni.

4. gr.

 

Úrsögn félaga úr knattspyrnufélaginu Kára er með öllu frjáls svo lengi sem viðkomandi félagi stendur ekki í skuld við félagið.

 

5.gr.

Ársgjald félagsmanna skal ákveða árlega á aðalfundi og skal ársgjald miðast við fjárhagsstöðu félagsins árlega.

6.gr.

Stjórn félagsins skipa fimm manns auk tveggja varamanna, eru þeir eftirfarandi: Formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Stjórnin skal öll kosin á aðalfundi félagsins og er hún kosin til eins árs í senn og skal hver stjórnarmaður kosinn sérstaklega. Ef atkvæði falla jafnt skal miðast við að jafna kynjahlutföll fyrst, en annars skal kasta hlutkesti. Kosnir skulu fyrsti og annar varamaður. Stjórn félagsins skipar í eftirtaldar nefndir: framkvæmdanefnd og styrktarnefnd.

7. gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir fjórða mánuð hvers árs og skal til hans boðað með viku fyrirvara með auglýsingu. Telst aðalfundur löglegur ef löglega er til hans boðað og minnst tólf félagar komi. Ef sá fjöldi mætir ekki, skal boðað til nýs fundar og telst hann löglegur ef löglega er til hans boðað.

 

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 

  1. Kosnir skulu fundarstjóri og fundarritari.
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram.
  3. Reikningar félagsins.
  4. Kosning stjórnar.
  5. Ársgjald félagsins ákveðið.
  6. Lagabreytingar.
  7. Önnur mál.

Á aðalfundi ræður afl atkvæða öllum málum. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir skráðir og skuldlausir félagar.

8. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Skulu reikningar liggja frammi ekki síðar en sjö dögum fyrir aðalfund.

9.gr.

Stjórn félagsins er heimilt að vísa hverjum þeim er brýtur lög félagsins, gerist sekur um óprúðmannlega framkomu, eða vinnur gegn hagsmunum félagsins, úr félaginu.

10. gr.

Félagið skal vera aðili að Íþróttabandalagi Akraness, en leika undir eigin nafni.

 

11. gr.

Búningur félagsins skal vera rauðar og svartar þverröndóttar treyjur, svartar buxur og rauðir sokkar. Varabúningur félagsins skal vera bláar og hvítar þverröndóttar treyjur, bláar buxur og bláir sokkar.

12. gr.

Lögum félagsins er ekki heimilt að breyta nema með samþykki aðalfundar og þarf til þess 2/3 hluta fundarmanna. Tillögur um lagabreytingar skulu liggja frammi skriflega í byrjun aðalfundar.

13. gr.

Félagsslit geta ekki öðlast gildi nema stjórn samþykki þau og tveir lögmætir aðalfundir hafi samþykkt félagsslit með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Aðalfundi vegna félagsslita skal halda með minnst fjögurra vikna millibili og mest átta vikna millibili.

 

Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Samþykkt á aðalfundi þann 13.mars 2019

Edit Content
Edit Content
Edit Content