Knattspyrnufélag ÍA (KFÍA) á Akranesi vill koma eftirfarandi á framfæri vegna viðtals við Guðrúnu Dögg Rúnarsdóttur í Fréttablaðinu þann 5. maí 2018:
Umfjöllun Fréttablaðsins varðar grófa líkamsárás á árinu 2011 af hendi fyrrverandi leikmanns félagsins, Mark Doninger. Í kjölfarið fór leikmaðurinn frá Knattspyrnufélagi ÍA, var kærður og dæmdur fyrir líkamsárás.
Á árinu 2014, þremur árum eftir að framangreindir atburðir áttu sér stað, bárust þáverandi aðalstjórn KFÍA upplýsingar um að Guðrún Dögg og fjölskylda hennar væri ósátt við það hvernig KFÍA tók á þessu máli. Því var ákveðið að fá óháðan aðila til að skoða feril málsins og koma með tillögur til úrbóta. Í ljós kom að betur hefði mátt standa að málinu þar sem hegðun viðkomandi leikmanns var með öllu óásættanleg og úr takti við forvarnarstarf og grunngildi KFÍA. Í framhaldi af því var Guðrún Dögg beðin innilegrar afsökunar með bréfi dagsettu 5. nóvember 2014.
Til að læra af erfiðri reynslu var í framhaldinu sett af stað vinna á vegum félagsins við að útbúa viðbragðsáætlun og var m.a. leitað ráðgjafar frá Knattspyrnusambandi Íslands. Meginniðurstaða þess var að setja á laggirnar sérstakt Fagráð sem hefur það meginhlutverk að vera álitsgjafi vegna alvarlegra agavandamála s.s. vegna meints eineltis, andlegs og líkamlegs ofbeldis, kynferðislegrar áreitni og ótilhlýðilegrar framkomu (http://kfia.is/wp-content/uploads/2018/03/Verklagsreglur-um-fagr%C3%A1%C3%B0-KF%C3%8DA.pdf).
Til viðbótar hefur KFÍA nýlega samþykkt endurskoðaða stefnu ÍA gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi. (http://ia.is/wp-content/uploads/2018/04/Stefna-IA-gegn-einelti_ofbeldi_areitni.pdf). Þessi stefna er unnin í beinu samhengi við #metoo byltinguna og standa öll aðildarfélög ÍA að henni.
Knattspyrnufélag ÍA leggur mikla áherslu á að skapa og viðhalda umhverfi þar sem gagnkvæm virðing, traust, heilindi og fagmannlegt viðmót er í hávegum haft í öllum samskiptum. Til þess að undirstrika það hefur framangreind stefna og verkferlar verið sett fram til að gera allt sem unnt er til að uppræta háttsemi sem teljast má einelti, áreitni eða ofbeldi.
Að lokum skal áréttað að stjórnendur KFÍA harma framangreint mál og líta það mjög alvarlegum augum. Málið reyndist öllum sem að því komu mjög viðkvæmt og erfitt.
Akranesi 5. maí 2018
Aðalstjórn Knattspyrnufélags ÍA