1. gr.
Félagið heitir Fimleikafélag Akraness, skammstafað FIMÍA.
2. gr.
Tilgangur félagsins er að iðka fimleika.
3. gr.
Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt skriflega til stjórnar félagsins. Úrsögn skal tekin til greina ef viðkomandi er skuldlaus við félagið.
4. gr.
Árgjald félagsmanna skal ákveðið á aðalfundi.
5. gr.
Stjórn félagsins skipa fimm menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Stjórnin skal kosin á aðalfundi félagsins og skal hver stjórnarmaður kosinn sérstaklega. Komi aðeins fram ein uppástunga til stjórnarstarfa, þá er sá sem er tilnefndur, sjálfkjörinn. Stjórnin er kosin til eins árs í senn. Séu atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða. Kosnir skulu 2 menn í varastjórn.
6. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn í mars ár hvert. Til fundarins skal boða með viku fyrirvara með auglýsingu. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
Kosinn fundarstjóri og fundarritari.
Skýrsla stjórnar.
Reikningar félagsins.
Kosning stjórnar og varastjórnar.
Kosning tveggja endurskoðenda.
Ákveðið árgjald félagsmanna.
Önnur mál.
Á fundinum ræður afl atkvæða í öllum málum, þó með þeim undantekningum, sem gerðar eru í lögum þessum. Rétt til setu á aðalfundi og atkvæðisrétt þar hafa allir skráðir félagar FIMA, sem greitt hafa árgjöld félagsins. Einn fulltrúi Íþróttabandalags Akraness hefur ennfremur rétt til setu á aðalfundi. Hefur sá fulltrúi tillögurétt og málfrelsi en ekki atkvæðisrétt.
7. gr.
Reikningar félagsins skulu miðast við 31. Desember ár hvert. Reikningarnir skulu endurskoðaðir og liggja frammi ekki síðar en 7 dögum fyrir aðalfund.
8. gr.
Heimilt er stjórn félagsins að vísa hverjum þeim er brýtur gegn lögum félagsins eða gerist sekur um óprúðmannlega framkomu, úr félaginu. Ákvörðun stjórnar skal lögð fyrir næsta aðalfund félagsins til staðfestingar.
9. gr.
Félagið skal vera aðili að Íþróttabandalagi Akraness og koma fram undir nafni þess þar til annað verður ákveðið.
10. gr.
Komi fram tillaga um að leggja félagið niður skal slíkt tekið fyrir á aðalfundi og þarf slík tillaga 2/3 hluta atkvæða til þess að hljóta samþykki. Verði félagið lagt niður, þá skulu eignir þess renna til Íþróttabandalags Akraness. Í.A. skal þó innan 5 ára frá því félagið er lagt niður, reiðubúið að afhenda þeim eignir félagsins, sem vilja endurreisa félagið eða stofna nýtt fimleikafélag.
11. gr.
Lögum þessum má ekki breyta, nema með samþykki aðalfundar og þarf til þess samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna. Tillögur um lagabreytingar skulu liggja frammi skriflega sjö dögum fyrir aðalfund.
12. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.