ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Vincent Weijl gengur til liðs við ÍA út keppnistímabilið

Vincent Weijl gengur til liðs við ÍA út keppnistímabilið

30/07/18

#2D2D33

Knattspyrnufélag ÍA (KFÍA) hefur samið við hollenska leikmanninn Vincent Weijl um að spila með ÍA út keppnistímabilið.

Vincent er 27 ára miðjumaður og hefur umtalsverða reynslu að baki sem mun vafalaust nýtast KFÍA vel út sumarið. Hann kemur úr unglingaakademíu AZ Alkmaar og var á samningi hjá Liverpool á sínum tíma. Á atvinnumannaferil hans hefur Vincent spilað með liðum í Danmörku, Hollandi, Spáni og Malasíu svo dæmi sé tekið. Hann á jafnframt að baki unglingalandsleiki með U-19 og U-20 í Hollandi.

KFÍA vill bjóða Vincent Weijl hjartanlega velkominn til félagsins. Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari mfl karla hjá ÍA, var mjög ánægður með að fá leikmanninn og sagði: „Ég er mjög sáttur með að fá reynslumikinn miðjumann eins og Vincent Weijl til liðs við ÍA. Þetta er fjölhæfur leikmaður sem hefur gert góða hluti hjá mörgum liðum og slík reynsla er mikilvæg fyrir liðið okkar. Við höfum þannig náð að styrkja liðið umtalsvert í félagaskiptaglugganum og við munum nú leggja okkur alla fram um að taka toppsætið í Inkasso-deildinni.“

Aðspurður sagði Vincent Weijl að hann hlakkaði mikið til að spila með ÍA. Hann hefði spilað með mörgum liðum víðsvegar um heiminn og það væri frábært tækifæri að fá að spila fótbolta á Íslandi. Þegar möguleikinn hefði komið upp að fara til ÍA hefði hann ekki verið í neinum vafa. Vincent vonaðist svo til að reynsla hans og þekking myndi nýtast félaginu og liðsfélögum hans eins og mögulegt væri.

Heimir Fannar Gunnlaugsson, stjórnarmaður hjá KFÍA sagði svo: „Ég tel það mjög mikilvægt að fá reynslumikinn miðjumann eins og Vincent Weijl til liðs við ÍA. Liðið hefur verið að spila fínan fótbolta stærstan hluta sumarsins og koma þessa leikmanns mun bara styrkja okkur enn frekar fyrir seinni hluta tímabilsins. Með komu hans og Jeppe Hansen er ÍA betur í stakk búið til að fara upp í Pepsi-deildina þar sem við eigum að sjálfsögðu heima.“

Við undirskriftina má sjá Heimir Fannar Gunnlaugsson, stjórnarmann hjá KFÍA, Vincent Weijl og Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfara mfl karla hjá ÍA.

Edit Content
Edit Content
Edit Content