‘-sigur í fyrsta heimaleiknum
Það var stór dagur í sögu Körfuknattleiksfélags ÍA sunnudaginn 19. október 2014. Fyrsti heimaleikurinn í Íþrótthúsinu við Vesturgötu í mörg ár er orðin staðreynd.Eftir nokkurra ára vinnu, þar sem margir þurftu að koma að málum hefur náðst samkomulag um að við fáum að spila heimaleiki okkar í vetur á Vesturgötunni. Viljum við koma til skila þakklæti til allra sem komið hafa að málinu þar sem það skiptir okkur miklu máli að spila okkar leiki “á heimavelli“ eins og við segjum.Eitt af því sem vóg hvað þyngst í að koma heimaleikjunum okkar á Vesturgötuna var að bæta aðstöðu fyrir áhorfendur, og það er óhætt að segja að að fólk hafi tekið þessari breytingu vel og var mætingin mjög góð, takk fyrir komuna þið öll tæplega 200 sem mættuð.
En að leiknum sjálfum. Það voru bræður okkar frá Akureyri sem mættu í heimsókn. Fyrir leikinn höfðum við Skagamenn tapað okkar eina leik í deildinni til þessa og Þórsarar höfðu tapað tveimur fyrstu leikjum sínum. Það var því mikilvægt fyrir bæði lið að sigra í leiknum.Fannar Helgason var að spila sinn fyrsta heimaleik eftir að hafa snúið heim og var hann þakklátur fyrir móttökurnar og mætinguna í stuttu viðtali eftir leikinn.En leikurinn fór rólega af stað, gestirnir skoruðu fyrstu körfuna eftir rúmlega 2ja mínútna leik og það tók heimamenn rúmar 3 mínútur að setja niður fyrsta stigið, eitthvað stress og einhver skjálfti virtist fylgja því hjá heimamönnum að spila loksins á Vesturgötunni á meðan Þórsurum virtist vera alveg sama. Liðin skiptust svo á að hafa forystuna í fyrsta fjórðungnum og var munurinn sjaldnast meiri en ein karfa fyrr en ÍA komst í 16-11 þegar rétt rúm mínúta var eftir að fjóðungnum en Þórsarar áttu síðustu körfu fjórðungsins og tókst að hafa hana þriggja stiga og staðan að loknum fyrsta leikhluta því 16-14 fyrir ÍA.
Í öðrum leikhluta fóru Skagamenn á kostum, skorðu hverja körfuna á fætur annari, stálu boltanum hvað eftir annað og þegar annar fjórðungur var hálfnaður var staðan orðin 33-16 og ÍA búnir að skora 17 stig gegn tveimur frá Þór og hélst sá munur á liðinum út hálfleikinn og staðan að loknum öðrum leikhluta 45-28.
Þórsarar réðu ráðum sínum í hálfleik og mættu af sama krafti og þeir gerðu í upphafi leiks. Þeir náðu þó aldrei að ógna forystu Skagamanna að neinu ráði en staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var 13 stiga munur heimamönnum í vil, 57-44.
Í loka leikhlutanum reyndu Þórsarar að halda uppteknum hætti og saxa á forskot ÍA og þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af fjórðungnum var munurinn kominn niður í 11 stig, 62-51, en þá spýttu heimamenn í lófana og lönduðu á endanum 14 stiga sigri en lokatölur leiksins urðu 74-60 fyrir ÍA.
Skagamenn er því komnir með 50% vinningshlutfall í vetur með 1 sigur og 1 tap en Þórsarar eru enn án sigur eftir 3 leiki.
Í liði ÍA var Lemuel Doe stigahæstur með 23 stig auk þess sem hann tók 11 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal 6 boltum.Áskell Jónsson var næst stigahæstur með 14 stig, 5 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta.Fannar Helgason skilaði tvöfaldri tvennu, skoraði 12 stig og tók 14 fráköst auk þess að skila 7 stoðsendingum.Birkir Guðjónsson var einnig með 12 stig, tók 2 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.Ómar Helgason setti 7 stig, tók 4 fráköst og gaf 1 stoðsendingu.Erlendur Ottisen var með 6 stig, 4 fráköst og 1 stoðsendingu.Jón Rúnar Baldvinsson var með 2 fráköst og 1 stoðsendingu.Oddur Óskarsson var svo með 1 frákast.Nánari upplýsingar um tölfræði leiksins má finna hér
Heilt yfir var leikur heimamann í lagi og báðir þjálfarar ÍA, þeir Áskell Jónsson og Fannar Helgason voru sáttir við sigurinn eftir leik en bentu þó á að sitthvað mætti laga. Fyrir okkur sem sátum á pöllunum var sennilega stærsta breytingin frá fyrra tímabili að fjöldi 3ja stiga skota var minni og nýtingin ekkert til að hrópa húrra fyrir en liðið skoraði einungis tvær 3ja stigakörfur í leiknum í 16 tilraunum. Aftur á móti var frákastageta liðsins töluvert meiri en á síðasta tímabili.
Dómarar leiksins komust ágætlega frá sínum leik en gerðu að sjálfsögðu, líkt og leikmenn, sín mistök en engin stórvægileg. Annars voru ekki dæmdar svo margar villur í leiknum, 16 villur fengu heimamenn í ÍA á meðan gestirnir í Þór fengu 11 villur dæmdar á sig. Það þýðir að menn voru ekki mikið á vítalínunni, kannski sem betur fer hugsa þeir því vítanýting beggja liða var afar slök, ÍA hitti úr 6 af 11 vítum sínum á meðan Þórsarar hittu úr 5 af 13 vítaskotum sínum.
En þegar öllu er á botninn hvolft þá var þetta gleðidagur í körfunni á Akranesi og gestir á pöllunum óskuðu margir hverjir hvor öðrum gleðilegrar hátíðar, slík var ánægjan með að vera komin aftur á Vestugötuna. Þetta var bara fyrsti heimaleikurinn á tímabilinu þannig að við eigum eftir að fá nokkur tækifæri til viðbótar til að koma á Vesturgötuna og horfa á þessa skemmtilegu íþrótta sem körfuboltinn er, spilaða þar. Svo vonandi sjáumst við sem flest á pöllunum á Vesturgötunni í vetur.
Næsti heimaleikur okkar í deildinni verður 6. nóvember þegar Valsmenn koma í heimsókn en áður eigum við heimaleik í bikarnum á móti Þór frá Akureyri en endanleg tímasetning á þeim leik er ekki klár á þessari stundu en helgin 30. okt. – 2. nóv. er sett bikarhelgi hjá KKÍ.En næsta verkefni ÍA í 1. deildinni er núna á föstudaginn þegar strákarnir gera sér ferð vestur á Ísafjörð og mæta nýðliðum deildarinnar í KFÍ en liðið féll úr Dominosdeildinni á síðustu leiktíð. Vestfirðingarnir fara ekki vel af stað í deildinni í ár og hafa tapað 3 heimaleikjum í röð. Það má því ganga út frá því sem vísu að þeir mæta sigurhungraðir til leiks og okkar menn í ÍA þurfa að eiga mjög góðan leik til að eiga möguleika á sigri fyrir vestan, eða eins og Áskell sagði í viðtali eftir leikinn “ég man ekki eftir að hafa unnið á Ísafirði“, en innskot fréttaritara í lokin, “einhver tímann verður allt fyrst“.
Áfram ÍA.Myndir Jónas H. Ottósson en fleiri myndir frá leiknum má nálgast hér