Mánudaginn 24. september fengum við Hafdísi Ingu Hinriksdóttur félagsráðgjafa til okkar en hún var með erindi fyrir starfsmenn, þjálfara og stjórnarmeðlimi aðildarfélaga ÍA. Fyrirlesturinn var um ofbeldi í íþróttum og hvernig bregðast eigi við ef slík mál koma upp og tengdist hann innleiðingu á stefnu og aðgerðaráætlun ÍA í málaflokknum. Hafdís Inga hefur mikla þekkingu á þessum málum og var fyrirlestur hennar mjög fróðlegur og gagnlegur.
Fyrirlesturinn var í boði Íþróttabandalags Akraness og Akraneskaupstaðar og sóttu hann um 50 mannst frá aðildarfélögum ÍA.
Hér að neðan eru tíu heilræði sem Hafdís fór m.a. yfir og við ættum öll að tileinka okkur.
10 heilræði til þjálfara
- Virtu réttindi iðkenda og þín eigin
- Þekktu réttindi þín og skyldur
- Þekktu einkenni og birtingarmyndir kynferðislegar áreitni og misnotkunar, ásamt andlegs ofbeldis
- Líttu eftir þessum einkennum í þínu liði – þú þarft að bregðast við
- Ef þú hefur einhverjar áhyggjur skaltu láta vita af þeim
- Ekki bjóða iðkanda að fara einan með þér eitthvert, t.d í bíl
- Hvettu ekki til eða þrýstu á kynferðislegar athafnir af hálfu iðkanda
- Láttu vita ef einhver hagar sér á óviðeigandi hátt
- Vertu góð fyrirmynd fyrir aðra til að fylgja
- Gleði er mikilvæg, hafðu gaman með liði þínu og öðrum þjálfurum, innan skynsamlegra marka