Í gærkvöld, þann 6. apríl var 73. ársþing ÍA haldið í hátíðarsalnum að Jaðarsbökkum. Góð mæting var á ársþingið og mikill samhugur í fólki.
Sigurður Elvar Þórólfsson var kjörinn þingforseti og stýrði hann ársþinginu af myndarbrag. Helga Sjöfn Jóhannesdóttir, formaður ÍA fór yfir það helsta í starfsemi Íþróttabandalagsins á árinu 2016 og Svava Huld Þórðardóttir fór yfir ársreikninga félagsins. Ársskýrslu ÍA og aðildarfélaga auk ársreikninga má finna í Ársskýrslu ÍA 2016. Fram kom m.a. að fjárhagsstaða ÍA er traust og rekstur aðildarfélaga almennt góður og fjárhagur þeirra traustur enda hefur mikilli ráðdeild verið gætt í öllum rekstri ÍA og aðildarfélaga.
Sigurfari – siglingafélag Akraness var samþykkt formlega inn í Íþróttabandalag Akraness og eru aðildarfélög bandalagsins þá orðin 19 talsins.
Ný stjórn ÍA var kjörin á ársþinginu. Formaður er áfram Helga Sjöfn Jóhannesdóttir, aðrir í framkvæmdastjórn ÍA eru: Sigurður Arnar Sigurðsson, Svava Huld Þórðardóttir, Marella Steinsdóttir og Þráinn Haraldsson, sem kemur nýr inn en hann hafði verið í varastjórn ÍA. Varamenn í stjórn eru: Ragnhildur Inga Aðalsteinsdóttir og Pálmi Haraldsson. Úr stjórn gekk Karítas Jónsdóttir og eru henni þökkuð góð störf fyrir íþróttabandalagið.
Fjórtán aðilar voru sæmdir bandalagsmerki ÍA fyrir góð störf fyrir ÍA og aðildarfélög þess. Þessir aðilar eru: Anna Bjarnadóttir, Bjarney Guðbjörnsdóttir, Guðbjörg Árnadóttir, Guðlaug Sverrisdóttir, Gunnar Haukur Kristinsson, Hannibal Hauksson, Harpa Hrönn Finnbogadóttir, Hörður Kári Jóhannesson, Írena Rut Jónsdóttir, Jóhanna Hallsdóttir, Sigurður Jónsson, Stefán Jónsson, Þorbjörg Magnúsdóttir og Örn Arnarson og eru ítrekaðar þakkir til þeirra fyrir vel unnin störf.
Hafsteinn Pálsson tók til máls og bar fyrir kveðju frá ÍSÍ.
Ýmsir aðrir tóku til máls og ræddu m.a. um aðstöðumál, fjármál og almenna heilsueflingu en einnig tók til máls Sigrún Ríkharðsdóttir og bar fyrir kveðju frá aðstandendum Ríkharðs Jónssonar með þökkum fyrir þá virðingu og hjálp sem íþróttasamfélagið og bæjaryfirvöld á Akranesi sýndu við fráfall Ríkharðs.
Helga Sjöfn, formaður ÍA sleit þinginu og lagði áherslu á að bjart væri framundan hjá ÍA og með samheldni og samvinnu séu félaginu allir vegir færi.