ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Varðandi frétt um æfingagjöld í knattspyrnu

Varðandi frétt um æfingagjöld í knattspyrnu

26/10/15

#2D2D33

Fimmtudaginn 22. október birti mbl.is frétt um verðkönnun á æfingagjöldum sem Verðlagseftirlit ASÍ tók saman um æfingagjöld hjá  4. og 6. flokki. Eins og sjá má á töflu sem fylgir með fréttinni eru æfingagjöld hjá Knattspyrnufélagi ÍA með þeim hæstu af þeim félögum sem taflan nær til.


Í viðhengi með fréttinni er tekið fram að hér sé aðeins um verðsamanburð að ræða en ekki lagt mat á þá þjónustu eða dagskrá sem í boði er hjá félögunum, fjáraflana sem félögin standa fyrir, tómstundaframlags frá sveitarfélögum, æfingafatnaðar, keppnisgjalda eða vinnuframlags foreldra til lækkunar á æfingagjöldum. Það er margt sem félögin gera með mismunandi hætti í þessum málum, hjá Knattspyrnufélagi ÍA eru æfingagjöldin árgjöld, þeim fylgja peysa og stuttbuxur/sokkar og félagið á sjálft keppnistreyjurnar. Á sama tíma eru sum önnur félög með skráningu til hálfs árs eða jafnvel fjögurra mánaða í senn (og þá oft hærri æfingagjöld yfir sumarið), enginn æfingafatnaður fylgir og iðkendur verða sjálfir að kaupa og hirða um keppnistreyjur.


Æfingagjöld Knattspyrnufélags ÍA sem koma fram í fréttinni  eru s.s þriðjungur af árgjaldi án þátttöku í fjáröflunum. Við höfum aðeins upplýsingar um eitt annað félag sem byggir æfingagjöld upp með þeim hætti sem við gerum, þ.e. að það sé val um að skrá iðkendur með eða án þátttöku í fjáröflunum. Við erum eitt af fáum félögum sem heldur svo stórt mót sem Norðurálsmótið er og þetta fyrirkomulag æfingagjalda gefur okkur betri yfirsýn yfir mönnunina fyrir mótið með meiri fyrirvara en annars væri. Svona samanburður lítur ekki vel út fyrir félagið, en það er þó þannig að æfingagjöld taka mið af kostnaði félagsins af starfi yngri flokka ásamt hlutdeild í rekstri skrifstofu félagsins. Þess má geta að ef árgjald með þátttöku í fjáröflunum væri haft með í töflunni væru það lægstu æfingagjöldin.

 

Við teljum okkur reka mjög metnaðarfullt starf hjá yngri flokkum. Það hefur verið unnið markvisst að því að fjölga þjálfurum og aðstoðarþjálfurum og boðið er upp á markmannsþjálfun niður í 6. flokk. Við teljum menntunarstig okkar þjálfara vera gott og vinnum stöðugt í því að bæta í þar. Einn mælikvarði á árangur í starfinu er að það sem af er ári hafa 24 iðkendur hjá félaginu verið kallaðir inn til æfinga og/eða keppni hjá yngri landsliðum Íslands og 32 hafa tekið þátt í verkefnum á vegum KSÍ sem kalla má forverkefni landsliða.

 

Upphaflegu fréttina má lesa hér: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/22/hvad_kostar_ad_aefa_knattspyrnu/

Edit Content
Edit Content
Edit Content