ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Val á Íþróttamanni Akraness 2018

Val á Íþróttamanni Akraness 2018

24/12/18

SH9A0255 (Large)

Þann 6. janúar næstkomandi verður tilkynnt um val á Íþróttamanni Akraness árið 2018. Athöfnin fer fram í Íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum að lokinni þrettándabrennu.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í íbúagátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 21. desember til 2. janúar. Þátttakendur þurfa að auðkenna sig í innskráningu með rafrænum skilríkjum eða íslykli og skal tekið fram að kosningin er með engu móti rekjanleg þrátt fyrir rafræna auðkenningu. Auðkenni þátttakenda eru dulkóðuð þegar niðurstaða kosningarinnar er tekin saman. Umsjónaraðili kosningarinnar getur aðeins séð niðurstöðu kosningarinnar sjálfrar og hvenær atkvæðin koma inn hverju sinni. Kosningin nær einungis til svæðis undir póstnúmeri 300 og getur hver þátttakandi aðeins kosið einu sinni.

Tilnefndir íþróttamenn eru:

Badmintonmaður ársins: Brynjar Már Ellertsson
Brynjar Már er fæddur árið 2001 og æfir hann með Badmintonfélagi Akraness. Hann hefur staðið sig mjög vel á árinu, bæði innanlands og utan. Hann hefur keppt á mörgum mótum og oft komist í úrslit og undanúrslit. Brynjar Már hefur verið í æfingahópum U19, U23 og A landsliða og var valinn í U17 landslið Íslands sem keppti á Danish Junior í Danmörku í maí. Brynjar var einnig valinn í U19 landslið Íslands sem tók þátt á Evrópumóti unglinga í Lettlandi í september. Þar tók hann bæði þátt í liðakeppni og einstaklingskeppni. Brynjar Már hefur verið á afreksbraut FVA í vetur og stundar æfingar af kappi. Hann mætir vel á æfingar og leggur sig alltaf fram. Brynjar fór í þrjár æfingabúðir á árinu: á Akranesi, í Danmörku og á Spáni.
Brynjar er fyrirmynd margra yngri spilara og það verður gaman að fylgjast með honum og öðrum krökkum af Skaganum á næstu árum.

Fimleikamaður ársins: Harpa Rós Bjarkadóttir
Fimleikafélag Akraness tilnefnir Hörpu Rós Bjarkadóttur fimleikamann ársins 2018. Harpa Rós er fædd árið 1997 og æfir hópfimleika með meistaraflokki FIMA. Harpa er elsti iðkandi félagsins og lykilmaður í liði meistaraflokks. Hún hefur sinnt hlutverki fyrirliða síðustu árin og gert það með mikilli prýði. Hún er dugleg og metnaðargjörn en umfram allt jákvæð og hógvær. Hún er frábær fyrirmynd liðsfélaga sinna og yngri iðkenda. Harpa þjálfar yngri flokka hjá félaginu og vinnur nú, ásamt fleirum, að uppbyggingu drengjafimleika á Akranesi. Hún er ómissandi hlekkur í þjálfarateymi FIMA. Harpa varð Íslandsmeistari í efstu deild í stökkfimi ásamt liði meistaraflokks í Egilshöllinni í apríl. Í nóvember keppti hún svo á haustmótinu í hópfimleikum sem fram fór hérna á Akranesi. Þar setti liðið persónulegt stigamet og sigraði B deildina með 46.860 stigum og vann sér þar af leiðandi inn keppnisrétt í efstu deild. Harpa er frábær fimleikakona í stöðugri framför og er vel að titlinum komin.

Hestaíþróttamaður ársins: Jakob Svavar Sigurðsson
Jakob Svavar er fæddur árið 1975 og æfir með Hestamannafélaginu Dreyra. Það er alkunna að Jakob Svavar Sigurðsson er einn af bestu íþróttaknöpum á landinu og hefur verið á toppnum í mörg ár. Hann er agaður keppnismaður en þó ávallt prúður og til fyrirmyndar. Hann hefur hlotið mörg verðlaun fyrir góða reiðmennsku og prúðmennsku. Jakob sýnir hesta sína af öryggi og hefur fumlaust og létt taumsamband við hrossin sem undirstrikar hæfileika hestsins. Jakob Svavar er fyrirmynd allra þeirra sem vilja ná árangri á vettvangi hestaíþrótta.

Íþróttamaður Þjóts: Jóhanna Nína Karlsdóttir
Jóhanna Nína er fædd árið 1998 og er uppalinn í Hvalfjarðarsveit. Hún hefur æft með Þjóti íþróttafélagi fatlaðra á Akranesi frá því á unga aldri. Hún hefur æft ýmsar íþróttir en um þessar mundir stundar hún boccia og sund af kappi. Jóhanna hefur æft boccia frá árinu 2014 og hefur tekið sífelldum framförum en segja má að árið 2018 hafi verið hennar ár. Jóhanna er vel liðin af liðsfélögum sínum og þjálfurum, Hún er ávallt jákvæð, metnaðarfull og er dugleg að hvetja aðra. Jóhanna keppti á tveimur mótum árið 2018. Eitt af því var Íslandsmót ÍF í boccia (einstaklingskeppni) þar sem Jóhanna lenti í öðru sæti í þriðju deild.

Karatemaður ársins: Ólafur Ían Brynjarsson
Ólafur Ían er fæddur árið 2004 og æfir með Karatefélagi Akraness. Ólafur Ían vann sér inn svart belti eða 1. dan í karateíþróttinni í Fredrikstad í Noregi nú í sumar, með glæsibrag. Hann er jafnframt yngsti svartbeltingurinn sem Karatefélag Akraness hefur eignast. Hann hefur verið mikilvægur keppandi Karatefélags Akraness á síðustu árum og keppir nú í unglingaflokkum. Árið 2018 vann Ólafur sér inn nokkur verðlaun í KATA sem er hans keppnisgrein innan karate en hann keppir þar í mjög sterkum flokki. Hann varð í þriðja sæti á Reykjavík International Games 2018 í kata 13 ára drengja. Hann varð í þriðja sæti á fyrsta móti Grand Prix mótaraðarinnar í flokki 14 – 15 ára. Þá varð hann í öðru sæti í hópkata í flokki 14 – 15 ára táninga ásamt liðsfélögum sínu úr Karatefélagi Akraness, þeim Kristrúnu Báru og Kristni Benedikt. Ólafur Ían hefur æft karate frá unga aldri og er mikil íþróttamaður sem leggur sig fram á æfingum. Hann hefur einnig sótt æfingabúðir reglulega í íþróttinni bæði innanlands og erlendis. Ólafur hefur einnig æft nokkrum sinnum með úrtakshópi fyrir unglingalandslið Íslands. Ólafur Ían er sterkur keppandi í karateíþróttinni og góð fyrirmynd innan félagsins fyrir yngri keppendur.

Keilumaður ársins: Magnús Sigurjón Guðmundsson
Magnús Sigurjón Guðmundsson er keilumaður ársins á Akranesi 2018. Magnús spilar með ÍA en einnig með Clan í Nässjö í Svíþjóð þar sem Magnús er búsettur. Clan fékk silfurmedalíu í Elite serien sem er ein af sterkustu deildum í heimi. Magnús hefur spilað til úrslita í flestum þeim einstaklingsmótum í Svíþjóð sem hann hefur tekið þátt í þar á meðal Smålandsturen sem er stærsta mótaröð þar í landi.

Klifrari ársins: Brimrún Eir Óðinsdóttir
Brimrún Eir er fædd árið 2001 og æfir með Klifurfélagi ÍA. Brimrún hefur æft klifur af kappi frá stofnun Klifurfélags ÍA og hefur verið burðarás í starfi klifurfélagsins, bæði sem keppandi, leiðbeinandi og fyrirmynd fyrir unga ÍA- klifrara. Brimrún Eir er fyrsti Íslandsmeistari ÍA í klifri en hún hampaði sínum fyrsta titli árið 2017. Í ár landaði hún öðrum Íslandsmeistaratitli sínum fyrir ÍA þegar hún lauk mótaröðinni í grjótglímu í efsta sæti í flokki 16-19 ára. Brimrún Eir fór sem fulltrúi Íslands á Norðulandameistaramótið í línuklifri ásamt hópi íslenskra klifrara og stóð sig með prýði á sínu fyrsta móti á erlendri grundu. Framundan hjá Brimrúnu Eir er Íslandsmeistarmót í febrúar og Bikarmeistarmót í mars þar sem hún hefur titil að verja í grjótglímunni.

Knattspyrnukona ársins: Unnur Ýr Haraldsdóttir
Unnur Ýr er fædd árið 1994 og spilar með Knattspyrnufélagi ÍA. Hún hefur verið lykilmaður hjá liðinu lengi og spilað 107 leiki og skorað í þeim 38 mörk (mót á vegum KSÍ). Hún er metnaðargjörn, kraftmikil og mikill dugnaður í henni sem smitar út til annarra leikmanna.

Knattspyrnumaður ársins: Arnar Már Guðjónsson
Arnar Már er fæddur árið 1987 og æfir með Knattspyrnufélagi ÍA. Arnar Már hefur lengi verið einn af burðarásum liðsins. Hann er leiðtogi og mjög drífandi inni á vellinum og virkjar aðra með sér. Í heildina hefur Arnar Már spilað 237 leiki og skorað í þeim 44 mörk (ath leikir á vegum KSÍ, ekki æfingaleikir). Hann hefur einnig starfað sem þjálfari hjá KFÍA í yngri flokkunum og skilað sínu starfi mjög vel þar. Þar líta krakkarnir upp til hans sem leikmanns meistaraflokks ÍA. Árið í ár var mjög gott hjá honum og var hann einn af lykilmönnum ÍA liðsins sem sigraði Inkasso deildina.

Knattspyrnumaður Kára: Andri Júlíusson
Andri Júlíusson er fæddur árið 1985 og var hann elsti leikmaðurinn sem spilaði með Kára í 2. deild í sumar. Andri er einn af allra reynslumestu leikmönnum Kára en hann hefur spilað og skorað í öllum fjórum efstu deildunum á Íslandi og þar af spilað flesta sína leiki í efstu tveimur deildum landsins, en að auki hefur hann líka spilað í nokkur ár í Noregi.

Körfuknattleiksmaður ársins: Sindri Leví Ingason
Körfuknattleiksmaður ársins er Sindri Leví Ingason. Sindri er fæddur árið 2000 og lék hann töluvert stórt hlutverk í meistaraflokks liði ÍA í 1. deild á síðustu leiktíð þar sem hann spilaði um 19 mínútur í leik og skoraði að meðaltali 6.7 stig í leik. Það sem af er þessari leiktíð hefur hlutverk Sindra aukist enn meira og er hann jafnt og þétt að bæta sig sem leikmaður. Hann er einkar aðgangsharður í því að sækja á körfu andstæðinganna og er góður í því að skora. Sindri er þar að auki góður liðsfélagi, hæglátur og prúður bæði innan vallar sem utan. Hann er vel að því kominn að vera körfuknattleiksmaður árins 2018 hjá ÍA.

Kraftlyftingamaður ársins: Svavar Örn Sigurðsson
Svavar Örn Sigurðsson er fæddur árið 1999 og æfir hann kraftlyftingar hjá Kraftlyftingafélagi Akraness. Svavar Örn er búinn að stimpla sig inn sem einn af betri kraftlyftingamönnum sem Ísland hefur átt í léttari flokkum kraftlyftinga, allt frá tímum Skúla Óskarssonar. Hann keppir nánast eingöngu í klassíkum kraftlyftingum án útbúnaðar og leynir árangurinn sér ekki. Hann hefur sett fjölda Íslandsmeta á þeim stutta tíma sem hann hefur keppt og þá bæði í unglingaflokki og í opnum flokki fullorðinna. Þegar Svavar keppir er tekið eftir honum, hann hrífur fólk af öllum aldri með sér en það er sko ekki á allra færi. Hann er sterk og góð fyrirmynd fyrir unga iðkendur og lætur ekki sitt eftir liggja þegar kemur að því að leiðbeina þeim sem styttra eru komnir í íþróttinni. Svavar stefnir langt og við höfum ekkert séð enn. Hann mun einn daginn standa á efsta palli á heimsvísu því þar á hann svo sannarlega heima.

Kylfingur ársins: Valdís Þóra Jónsdóttir
Valdís Þóra er fædd árið 1989 og spilar golf með Golfklúbbnum Leyni. Valdísi Þóru þarf vart að kynna fyrir Skagamönnum, Íslandsmeistari í golfi, margfaldur klúbbmeistari Golfklúbbsins Leynis og einn fremsti kylfingur meðal kvenna til margra ára og atvinnukona í golfi. Valdís Þóra hefur allt frá unglingsaldri verið með skýr markmið sem hún hefur unnið markvisst eftir hvort sem er með æfingar í huga, Íslandsmeistaratitla, þátttöku í landsliðsverkefnum og nú sem atvinnukona í golfi. Valdís Þóra er góð fyrirmynd fyrir alla kylfinga og íþróttafólk og hefur ávallt verið til fyrirmyndar innan sem utan vallar.

Skotmaður ársins: Stefán Gísli Örlygsson
Stefán er fæddur árið 1974 og æfir með Skotfélagi Akraness. Stefán var í toppbaráttunni á öllum skeet mótum á Íslandi síðastliðið sumar. Hann er bikarmeistari í skeet 2018 og er efstur á stigalistanum yfir öll mót keppnistímabilsins. Þá skaut Stefán í þrígang í sumar skor yfir Ólympíulágmarkinu (MQS). Stefán keppti á fjórum mótum erlendis á árinu, þar á meðal heimsmeistaramótinu í Suður Kóreu og Evrópumeistarmótinu í Austurríki. Stefán skaut sig inn á heimslistann og er í hundraðasta sæti á þeim lista sem og í 88. sæti á Evrópulistanum. Hann og liðsfélagar hans í landsliðinu bættu Íslandsmetið í liðakeppni í Tucson í Bandaríkjunum. Stefán Gísli er mikill keppnismaður og leggur hart að sér við æfingar. Hann er góður íþróttamaður og ötull liðsmaður við uppbyggingu íþróttar sinnar á Akranesi og viljugur til að miðla af sinni þekkingu til annarra iðkenda.

Sundmaður ársins: Brynhildur Traustadóttir
Brynhildur Traustadóttir er fædd árið 2001 og æfir með Sundfélagi Akraness. Brynhildur sýndi og sannaði á árinu að hún er meðal bestu sundkvenna landsins í 200, 400, 800 og 1500 m. skriðsundi. Hún náði lágmörkum á Norðurlandameistaramótið sem haldið var í Finnlandi nú í desember. Þar hafnaði Brynhildur í 7. sæti í 200 m. skriðsundi eftir að hafa synt sig glæsilega inn í úrslit á mótinu. Í 400 m. skriðsundi hafnaði Brynhildur einnig í 7. sæti og í 800 m. skriðsundi í því níunda. Brynhildur hefur mikinn metnað fyrir sundíþróttinni og vinnur að markmiðum sínum með elju, dugnaði og góðu skipulagi ásamt því að stunda nám við FVA og Tónlistarskóla Akraness. Sundfélag Akraness er stolt af því að hafa sundkonu eins og Brynhildi innan sinna vébanda. Hún er dugleg að vinna fyrir félagið sitt og hefur talsvert miðlað af reynslu sinni til yngri sundmanna og sýnt þeim og kennt hvernig á að verða betri sundmaður.

Vélhjólaíþróttamaður ársins: Jóhann Pétur Hilmarsson
Jóhann Pétur Hilmarsson er fæddur árið 1971 og æfir motocross með Vélhjólaíþróttafélagi Akraness.  Jóhann Pétur byrjaði að æfa motocross árið 2008 og hefur verið að keppa frá árinu 2010 bæði í motocross og enduro keppnum. Hann er aðalsprautan í VÍFA og hefur unnið ötullega að uppbyggingu á svæði félagsins með  gróðursetningu og er motocrossbrautin í dag talin ein sú besta á landinu. Einnig hefur hann verið duglegur að leiðbeina og aðstoða aðra sem eru að stíga sín fyrstu skref í motocrossi.

Edit Content
Edit Content
Edit Content