Eins og við sögðum frá fyrir helgina léku báðir meistaraflokkarnir sína fyrstu leiki í undirbúningi fyrir nýtt tímabil.
Meistaraflokkur karla tók á móti KR í æfingaleik hér heima í Akraneshöllinni. Þar voru margir ungir strákar sem fengu tækifæri og stóðu vel í Pepsideildarliðinu sem var heldur meira með boltann. Það var þó markalaust í hálfleik. KR-ingar komust yfir snemma í seinni hálfleik en Skagamenn náðu að jafna og komast yfir, Gylfi Brynjar Stefánsson skoraði bæði mörk Skagamanna. KR-ingar náðu svo að jafna leikinn á ný undir lok leiksins og þar við sat.
Á meðan gerði meistaraflokkur kvenna sér ferð í Kópavoginn þar sem þær mættu Breiðabliki í æfingaleik. Það var mjög ungur hópur sem fór héðan frá Skaganum, en meðalaldur í liðinu var 18 ár í þessum leik. Blikar stilltu einnig upp ungu liði en höfðu þó nokkra reynslubolta í sínum röðum. Blikar höfðu boltann meira og stjórnuðu leiknum á meðan Skagastúlkur vörðust vel. Staðan í hálfleik var þó 2-0 fyrir heimaliðið, sem bættu svo við þriðja markinu í seinni hálfleik. Með aðeins meiri klókindum hefðu Skagastúlkur vel getað sett mark í þessum leik en það gekk ekki upp að þessu sinni.
Einnig voru leikir bæði hjá 2. flokki karla og kvenna.
Marga leikmenn vantaði í lið 2. flokks kvenna þegar þær tóku á móti FH í Faxaflóamótinu þar sem margar úr flokknum voru í leikmannahópi meistaraflokks sömu helgi. FH-ingar mættu með afar sterkt lið til leiks og uppskáru sigur með níu mörkum gegn engu.
Það voru miklir markaleikir hjá 2.flokki karla ÍA/Kári. A-liðið vann 3-2 sigur á Keflavík í hörkuleik, en B-liðið tapaði 2-3 gegn B-liði Keflavíkur.
Hvað segiði um það… boltinn ER kominn af stað!