Dagur Sjálfboðaliðans er í dag! Því ber að fagna
Íþróttahreyfingin á Akranesi stendur sterk og blómstrar ekki síst vegna ómetanlegs framlags sjálfboðaliða. Án þeirra væri erfitt að viðhalda þeim fjölbreyttu og metnaðarfullu verkefnum sem í boði eru fyrir unga sem aldna.
Sjálfboðaliðar leggja sitt af mörkum á ýmsum sviðum, allt frá skipulagningu, vinnu vegna viðburða og/eða til mikillar fjáröflunnar. Þeir gefa tíma sinn og orku af mikilli óeigingirni, oft án þess að leita nokkurs endurgjalds, en framlag þeirra skilar sér í ómetanlegri upplifun fyrir þátttakendur, hvort sem um ræðir unga iðkendur að stíga sín fyrstu skref eða reynt íþróttafólk sem keppa á háu stigi.
Á Akranesi hefur stuðningur samfélagsins við íþróttalífið lengi verið einstakur og sjálfboðaliðarnir eru hjartað í því starfi. Verk þeirra styrkja félagsanda, stuðla að heilbrigði og efla samheldni meðal samfélagsins. Sú mikla íþróttahefð sem á Akranesi er og á sér langa sögu, gerir Akranes að einstökum stað sem gott er að búa á.
Við viljum nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem leggja sitt af mörkum í þessum mikilvæga málaflokki. Framlag ykkar skiptir sköpum og hefur áhrif langt út fyrir íþróttavellina sjálfa.
Takk fyrir að gera íþróttahreyfinguna á Akranesi að því sem hún er í dag – kraftmikla, jákvæða og hvetjandi fyrir alla!
Með kærum þökkum fyrir ykkur
Íþróttabandalag Akraness