Á morgun, laugardaginn 9. desember, kl. 11:00 fer fram styrktarleikur hér í Akraneshöllinni fyrir Kidda Jens, en þá tekur meistaraflokkur karla á móti Íslandsmeisturum Vals.
Selt verður inn á leikinn, miðaverð er 2.000 kr. fyrir fullorðna en 500 kr. fyrir börn en innifalið í miðaverðinu er glæsilegt kaffihlaðborð í Hátíðasalnum hér á Jaðarsbökkum í hálfleik.
Listamaðurinn Bjarni Þór hefur gefið þetta fallega listaverk til uppboðs, þeir sem vilja bjóða í það geta sent einkaskilaboð til Knattspyrnufélags ÍA eða hópsins “Vinir Kidda Jens” á facebook, en uppboðinu lýkur í Hátíðasalnum í hálfleik. Til gamans má geta þess að þegar er komið tilboð upp á 100.000 kr, en gert er ráð fyrir að verkið verði greitt og afhent á staðnum.
Einnig munum við standa fyrir sölu á gömlum treyjum frá félaginu, á 500 kr. stk.
Allur ágóði af miðasölu, uppboði og treyjusölu mun að sjálfsögðu renna óskertur til Kidda Jens.
Það er óhætt að segja að Kiddi Jens sé flestum Skagamönnum vel kunnugur ekki síst öllum sem tengjast Knattspyrnufélagi ÍA en hann hefur um árabil verið eins og grár köttur hér í vallarhúsinu á Jaðarsbökkum, og ekki minnkaði það nú eftir að sonur hans, Aron Ingi, gerði samning við félagið árið 2016. Kiddi Jens er glaðvær, mannblendinn og hefur tæklað sín veikindi sem hann hefur barist við frá 1999 af alveg einstakri jákvæðni og æðruleysi. Þau hafa hins vegar orðið til þess að hann hefur þurft að leggjast undir hnífinn nokkrum sinnum á hverju ári með tilheyrandi tilkostnaði.
En gleymum ekki sjálfum leiknum. Strákarnir okkar í meistaraflokknum hafa staðið sig vel í þessum leikjum sem búnir eru á undirbúningstímabilinu og margir ungir leikmenn hafa fengið að spreyta sig. Það er þó ljóst að þessi leikur hlýtur alltaf að vera ákveðin prófraun, Valsmenn voru afar sterkir í sumar, unnu báðar viðureignirnar gegn Skagamönnum og markatalan í þeim var samtals 10-2. Raunar hafa okkar menn ekki riðið feitum hesti frá þessum viðureignum um allnokkurt skeið, á síðustu 5 árum eru skráðar 13 viðureignir félaganna en aðeins 2 sigrar Skagamanna. Það hefur þó enginn leikjanna verið markalaus og að meðaltali hafa verið skoruð rúmlega 4 mörk í leik. Við reiknum því alltaf með að leikurinn verði hin besta skemmtun.
Við hvetjum alla Skagamenn og Valsara og vini Kidda og bara alla sem vettlingi geta valdið að vera með okkur í Akraneshöllinni á morgun. Talandi um vettlinga, endilega hafiði þá með og húfur, úlpur, teppi og annan skjólfatnað, það verður KALT. Fyrir þá sem ekki hafa tök á að mæta á leikinn þá verður ÍA TV með beina útsendingu eins og þeim einum er lagið og við kunnum þeim hinar bestu þakkir fyrir. Þeim sem vilja styrka Kidda Jens beint bendum við á eftirfarandi reikningsupplýsingar: 552-14-402440 kt. 081173-4359
Áfram ÍA og áfram Kiddi Jens!