ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Styrktarleiknum lauk með jafntefli

Styrktarleiknum lauk með jafntefli

09/12/17

#2D2D33

Meistaraflokkur karla tók á móti Val í æfingaleik í Akraneshöllinni í dag, en leiknum lauk með 2-2 jafntefli. Leikurinn fór vel af stað og nokkuð jafnræði var með liðunum. Valsmenn komust þó yfir seint í fyrri hálfleik og tvöfölduðu forskot sitt skömmu eftir að leikurinn hófst á ný í síðari hálfleik. Skagastrákar voru þó ekki af baki dottnir, minnkuðu muninn á 58. mínútu og á þeirri 76. voru þeir búnir að jafna. Segja má að Skagamenn hafi verið óheppnir að ná ekki að landa sigrinum en þeir fengu dauðafæri á síðustu mínútu leiksins, sem hafnaði í hliðarnetinu. Markaskorarar ÍA voru Bjarki Steinn Bjarkason, í sínum fyrsta leik fyrir félagið, og Gylfi Brynjar Stefánsson. Líkt og í síðustu leikjum fengu margir leikmenn tækifæri og það var nánast alveg nýtt lið sem kom inná í síðari hálfleik.

Eins og við höfum áður sagt frá var leikurinn í samvinnu við vini Kidda Jens, selt var inn í Höllina og boðið uppá glæsilegt kaffihlaðborð í hálfleik. Upphæðin sem tókst að safna á leikdegi var 721 þúsund krónur, og það er fyrir utan önnur framlög sem hafa verið lögð beint inn á reikning hjá Kidda. Kiddi Jens var afar þakklátur og hafði á orði að sér liði bara eins og hann væri að fermast. Það eru að minnsta kosti þrjár aðgerðir framundan hjá honum á næstunni svo það er alveg ljóst að þessir peningar munu koma sér vel.

Við hjá Knattspyrnufélagi ÍA erum líka afar þakklát öllum þeim sem að leiknum komu. Við erum stolt af okkar félagsmönnum og snortin af þeim samhug sem var sýndur hér í dag, með margskonar framlagi, bakstri, vinnu við leikinn og auðvitað fjárframlögum. M.a.s. leikmenn beggja liða greiddu aðgangseyri á leikinn. Það er svo skemmtilegt að sjá hverju við getum áorkað þegar við leggjum öll saman.

Við erum ÍA.

 

 

 

  

Edit Content
Edit Content
Edit Content