HVAÐ ER Í BOÐI

VALMYND

skipaskagi

Glíma á Akranesi

Um 1700 var uppi maður frá Akranesi sem var svo frækinn glímumaður að hann fékk viðurnefnið Glímu-Magnús Jónsson.

Fyrr á öldum tóku útróðrarmenn á Skipaskaga að lokinni aðgerð til við glímu á túni ofan varanna á Akranesi.

Eins og almennt tíðkaðist hér á landi á 19. öld var íslenska glíman mikið iðkuð á Akranesi og oft höfð sem skemmtiatriði á mannfundum.

Frá 1800 til 1913 var ætíð mikið glímt á Akranesi, eftir 1913 hófu Ungmennafélögin opinber glímumót.

Um 1880 ríkti brennandi áhugi fyrir glímu á Akranesi og voru þeir einna fremstir glímumanna í Borgarfirði. Komust menn naumast ferða sinna á þess að dæmast til að bregða sér í glímu, þar sem fundum manna bar saman. Þeir sem vildu hafa sig undanþegna, voru hræddir og nefndir ragmenni. Ungum mönnum var því eigi undankomu auðið.

Afburðamenn í glímu á Akranesi í gegnum tíðina eru eftirtaldir:

Erlendur Erlendsson, hann var góður glímumaður og um eitt skeið talinn fiskikóngur á Skaga. Hann var fæddur 22. júní 1825 og d. 15. júlí 1882. Erlendur var tæpur meðalmaður á vöxt, fríður sýnum, lipur í limaburði og að öllu hinn knálegasti. Eitt sinn þegar Erlendur og menn hans höfðu lokið aðgerð, fóru þeir út á tún og fóru að glíma. Erlendur var þá rúmlega fimmtugur að aldri. Flestir hinna voru ungir, léttilega búnir og knálegir. Lék þar á ýmsu með byltur. Þó var þar einn glímumaður, sem ekki reyndist þægur ljár í þúfu, en þó meir sakir hreysti en fimleika. Erlendur kastar nú af sér jakka og skorar á þann hinn sterka mann að glíma við sig. Ekki stóð á honum, en svo fimlega voru glímubrögð Erlendar að maðurinn var fallinn fyrr en varði. ,,Æði sterkt var átakið en fallinn ertu’’ mælti Erlendur. Sjón var sögu ríkari um glímuást og glímuleikni Skagabúa á þessu tímabili, þar sem aldraðir menn gátu ekki setið hjá, þar sem glímuíþróttin var þreytt.

Halldór Einarsson á Grund á Akranesi sem var fæddur 8. júní 1839 var afburða knár og skarpur glímumaður, svo að fáir stóðu honum snúning. Hann var að margra dómi mesta glæsimenni á Skaga og flestum íþróttum búinn. Foreldrar hans voru Gunnhildur Halldórsdóttir á Háteig og Einar Þorvarðarson. Halldór var útgerðarmaður og formaður á Akranesi í mörg ár, en fórst í svonefndu Hoffmannsveðri 6.-7. janúar 1884. Halldór var meðalmaður á hæð, fallega byggður, vel limaður og fríður sýnum.

Guðmundur Þorbjörnsson frá Akranesi (1878-1955). Guðmundur gekk í Ármann árið 1906 sem síðar varð Glímufélagið Ármann, eftir að hann hafði sett það sem skilyrði þegar honum var boðið að ganga í félagið. Varð hann þeim mætur félagi og snjall glímukennari. Þó svo að Guðmundur starfaði skamma hríð hjá félaginu eða til 1909 þá voru áhrif hans mikil. Hann lagði áherslu á að kenna mörg brögð, svo glímuiðkendur yrðu fjölhæfir og þá einkum á fagra glímu. Eins og almennt var á Akranesi og í Borgarfirði á þessum tíma, glímdi Guðmundur upp á vinstri hönd. Guðmundur lét sér annt um glímuiðkun ungra manna, til dæmis þeirra Hallgríms Benediktssonar, Guðmundar Stefánssonar og Sigurjóns Péturssonar, sem öðluðust þjóðkunnan glímuknáleik undir handleiðslu hans.

Hallgrímur Jónsson glímumaður á Akranesi fæddist 1. júlí 1899, en lést aðeins þrítugur að aldri 9. nóvember 1930. Foreldrar hans voru Jón Sveinsson prófastur í Borgarfjarðarhéraði og kona hans Halldóra Hallgrímsdóttir.

Hallgrímur var ágætur glímumaður. Í Íslandsglímunni 1923, en þá sigraði Sigurður Greipsson, var hann jafn að vinningum þeim Magnúsi Sigurðssyni og Eggert Kristjánssyni, en þessir þrír gengu næst Sigurði Greipssyni.

Eyjólfur Jónsson, kunnur íþróttamaður á fyrstu tugum aldarinnar, fæddur 23. desember 1891. Foreldrar hans voru Ólöf Eyjólfsdóttir og Jón Sigurðsson.

Eyjólfur átti heima á Akranesi og var margar vertíðir skipstjóri á skipum Haralds Böðvarssonar. Á Akranesi var hann einn af stofnendum íþróttafélagsins Harðar Hólmverja, sem starfaði á árunum 1910-1924. Eyjólfur var lipur og drengilegur glímumaður. Hann var þátttakandi í Íslandsglímunni 1921. Eyjólfur andaðist 21. ágúst 1967.

Árið 1882 var stofnað félag á Akranesi sem kallað var Æfingafélagið. Eitt af markmiðum þess var að félagsmenn æfðu með sér glímu. Félag þetta starfaði fram til 1897.

Á Akranesi var stofnað ungmennafélag 23. janúar 1910 og voru þeir Oddur Sveinsson síðar kaupmaður í Brú, Haraldur Böðvarsson útgerðarmaður og Sveinbjörn Oddsson verkalýðsforingi, aðal hvatamenn að stofnun þess. Stofnendur voru 45 og var Haraldur Böðvarsson fyrsti formaðurinn. Glíma og sund voru þær íþróttir, sem mest rækt var lögð við á vegum ungmennafélagsins. Haldnar voru glímuæfingar, fyrst í pakkhúsi Haraldar Böðvarssonar við Breiðargötu og síðar í Báruhúsinu. Oft voru glímusýningar og kappglímur háðar.

Íþróttafélagið Hörður Hólmverji var stofnað af ungmennafélögum 26. desember 1919, en mun hafa starfað eitthvað fyrr. Það starfaði af miklu fjöri framan af, en mun hafa lagst niður um 1926. Þar var stunduð fyrst og fremst glíma. Árið 1920 var háð Sveitaglíma milli félaganna Harðar á Akranesi og Glímufélagsins Ármanns í Reykjavík og voru sjö í hvoru liði. Glímumenn þóttu snyrtilega búnir en eigi var talið að allar glímur hefðu vel tekist.

Knattspyrnufélögin á Akranesi urðu til upp úr 1920. Þó svo að félög þessi hafi upphaflega verið stofnuð sem knattspyrnufélög þá var keppt í ýmsum öðrum íþróttagreinum, s.s. glímu, handknattleik, sundi, frjálsum íþróttum o.fl.

Árið 1944 var haldið glímumót á Akranesi þar sem keppt var um nafnbótina ,,glímukappi Akraness” og glæsilegan viðarskjöld en á honum eru tveir glímumenn með Akrafjallið í baksýn. Sigurvegari varð Sveinn Guðbjarnason. Mótið var næst haldið árið 1947 og þá sigraði Sigurður Guðmundsson. Árið 1949 sigraði Ingvi Kristjánsson en 1950 varð Ólafur Þórðarson hlutskarpastur. Einnig voru veitt fegurðarveðlaun árið 1944 en þau hlaut Sveinn Guðbjarnason.

Um 1950 var það aðallega knattspyrna sem iðkuð var á vegum KA og Kára, en auk þess voru æfðar aðrar íþróttir og þar á meðal glíma.

Árið 1964 voru 22 virkir glímumenn á Akranesi en þeir voru iðkendur í Knattspyrnufélagi Akraness og Knattspyrnufélaginu Kára.

Skagamaðurinn, Ágúst Örlaugur Magnússon keppti í -90 kg flokki í Meistaramóti Íslands í glímu, þann 13. janúar 2007. Mótið var haldið í glímuhúsi Ármanns í Reykjavík. Ágúst Örlaugur keppti fyrir Kára og hafnaði í fjórða sæti.

Í janúar 2009 var boðið upp á glímu sem valgrein í Brekkubæjarskóla og var haldið glímumót í skólanum. Um vorið fóru síðan þrír af þeim sem höfðu verið í valinu á Grunnskólamót GLÍ og náði Andri Már Sigmundsson, þriðja sæti í glímu 8. bekkinga. Þeir kepptu einnig í Sveitakeppni og höfnuðu í þriðja sæti í flokki 15. – 16. ára. Sveitina skipuðu Arnór Már Grímsson, Allan Gunnberg Steindórsson og Andri Már Sigmundsson.

Glímufólk af Akranesi tók einnig þátt í afmælismóti KR 2009 og stóð sig með prýði.

Heimsmeistaramót IGA í glímu og hryggspennu var haldið að Geysi í Haukadal í ágúst 2009. Skagamaðurinn Arnór Már Grímsson tók þátt í mótinu og hafnaði í öðru sæti í báðum greinum í -66 kg flokki.

Í ágúst 2009 var stofnuð glímudeild innan Umf. Skipaskaga.

Engar upplýsingar fundust

1. grein

Félagið heitir Ungmennafélagið Skipaskagi, skammstafað USK.  Heimili félagsins og varnarþing er Akranes.

2. grein

Markmið félagsins eru:

  • að auka áhuga félagsmanna og almennings á líkamsrækt og stuðla að alhliða íþróttaiðkun.
  • að reyna eftir megni að vekja löngun hjá félagsmönnum að vinna að frelsi, framförum og heill sjálfra sín og þjóðarinnar af mannúð og réttlæti.
  • að vernda þjóðlega menningu.
  • að auka áhuga félagsmanna á hverskonar félags- og tómstundastarfsemi.
  • að vinna gegn tóbaksreykingum, neyslu áfengis og annara skaðnautna, s.s. vímuefna.
  • að vinna að markmiðum og stefnuskrá Ungmennafélags Íslands með kjörorðunum “Íslandi allt”.

3. grein

Markmiðum sínum hyggst félagið ná með fundahöldum, námskeiðum, íþróttaæfingum, félagsstarfi og ýmiskonar framkvæmdum sem bestar þykja á hverjum tíma.

4. grein

Félagi getur hver sá orðið, er sækir um inntöku í félagið og gangast vill undir lög þess.  Allir félagar 12 ára og eldri hafa atkvæðisrétt á fundum félagsins.  Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt formanni félagsins.  Félagi sem ekki hefur greitt árgjald sitt í 3 ár eða lengur telst hafa fyrirgert öllum réttindum sínum innan félagsins og skal ekki færður á félagsskrá fyrr en hann hefur greitt skuld sína.

5. grein

Aðalfund skal halda í febrúar ár hvert, og skal kosin þar stjórn og tveir endurskoðendur.  Endurskoðaðir reikningar nýliðins starfsárs skulu bornir upp til samþykkis.  Reikningsár félagsins er almanaksárið.  Félagsstjórn skal á aðalfundi skýra frá starfi félagsins á liðnu starfsári.  Aðalfundur skal boðaður bréflega, eða á annan hátt með minnst 7 daga fyrirvara og er lögmætur sé löglega til hans boðað.

6. grein

Aðalfundur ákveður á hverjum tíma árgjald félaga.  Gjalddagi árgjalda skal vera fyrir aðalfund hvers árs.  Stjórn félagsins skal halda spjaldskrá yfir alla meðlimi félagsins.
7. grein

Stjórn félagsins fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda.  Stjórn félagsins skipa 5 menn, formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur, auk tveggja varamanna.  Við kosningu stjórnar skal fyrst kosinn formaður, síðan fjórir meðstjórnendur sem skipta með sér verkum.  Allir félagar sem kosningarétt hafa eru kjörgengir til stjórnarstarfa en gjaldkeri skal vera fjárráða.  Stjórnin velur fulltrúa til að mæta fyrir hönd félagsins þar sem við á.  Stjórn félagsins er heimilt að skipa unglingaráð, og aðrar nefndir og sérráð til að hafa umsjón með einstökum málaflokkum er þurfa þykir.  Formaður er framkvæmdastjóri félagsins, nema stjórnin ráði sér annan framkvæmdastjóra.

8. grein

Ungmennafélagið Skipaskagier beinn aðili að UMFÍ.  Einnig er félagið aðili að ÍA og ÍSÍ og er því háð lögum, reglum og samþykktum þessara félaga.

9. grein

Á fundum félagsins ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum mála.  Lögum félagsins er aðeins hægt að breyta á aðalfundi.  Til þess að breytingar á lögum nái fram að ganga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

10. grein

Til að félagið verði lagt niður þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi og skal stjórnin þá boða til aukaaðalfundar sem verður einnig að samþykkja tillöguna með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.  Verði félagið lagt niður þá skal afhenda eigur þess Íþróttabandalagi Akraness til varðveislu, en ef hliðstætt félag verður stofnað innan íþróttahéraðsins síðar, skulu eignir félagsins afhentar hinu nýja félagi til afnota.

11. grein

Lög þessi öðlast gildi þegar þau hafa verið samþykkt á stofnfundi félagsins. Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi Ungmennafélagsins Skipaskaga þann 14. febrúar 1991.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content