ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagastelpur unnu stórsigur á Þrótturum

Skagastelpur unnu stórsigur á Þrótturum

06/04/18

#2D2D33

Meistaraflokkur kvenna spilaði í kvöld annan leik sinn í C-riðli Lengjubikarsins þegar þær mættu Þrótti R í Akraneshöll.

Skagastelpur hófu leikinn af krafti og á fyrstu mínútu leiksins skoraði Sigrún Eva Sigurðardóttir gott mark eftir stungusendingu frá Mareni Leósdóttur. ÍA hélt áfram að skapa sér góð færi og á 25. mínútu náði Sigrún Eva Sigurðardóttir boltanum á miðju vallarins. Hún kom boltanum á Mareni Leósdóttur, sem prjónaði sig í gegnum vörn Þróttar og vippaði boltanum yfir markvörð gestanna.

Þróttarar gáfust þó ekki upp og reyndu að skapa sér álitleg færi. Á 34. mínútu tók Þórkatla María Halldórsdóttir aukaspyrnu sem fór inn í vítateig ÍA. Eftir nokkurn barning barst boltinn til Gabríelu Jónsdóttur sem náði að koma boltanum í markið og staðan orðin 2-1.

Skagastelpur voru þó áfram sterkari aðilinn og á lokamínútu fyrri hálfleiksins gaf Unnur Elva Trausadóttir boltann á Bergdísi Fanney Einarsdóttur sem var staðsett utarlega við vítateig Þróttar. Hún náði föstu skoti sem markvörður gestanna náði ekki að halda og boltinn endaði í markinu. Staðan var því 3-1 fyrir ÍA í hálfleik.

Eftir því sem leið á seinni hálfleik áttu bæði lið nokkrar álitlegar sóknir sem ekki náðist að klára. Skagastelpur voru þó sterkari aðilinn og það kom berlega í ljós undir lok leiksins. Á 78. mínútu skoraði Unnur Ýr Haraldsdóttir með góðu skoti eftir góðan samleik við Mareni Leósdóttur.

Á 88. mínútu komst Unnur Ýr Haraldsdóttir ein innfyrir vörn Þróttar og átti gott skot sem markvörður gestanna varði vel. Hornspyrnan var svo tekin og Fríða Halldórsdóttir skoraði þar með góðum skalla.

Það var svo í uppbótartíma sem síðasta mark leiksins kom en þá vann Erla Karitas Jóhannesdóttir boltann af varnarmanni Þróttar. Hún gaf boltann á Bergdísi Fanneyju Einarsdóttur sem skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið.

Leikurinn endaði því 6-1 fyrir ÍA og Skagastelpur halda áfram góðu gengi sínu Lengjubikarnum.

Edit Content
Edit Content
Edit Content