ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagastelpur unnu stórsigur á Hömrunum að norðan

Skagastelpur unnu stórsigur á Hömrunum að norðan

04/07/18

#2D2D33

Meistaraflokkur kvenna spilaði sinn áttunda leik í Inkasso-deildinni þegar liðið fékk Hamar í heimsókn í Akraneshöll. ÍA var í baráttu í efri hluta deildarinnar en Sindri var í neðri hluta deildarinnar svo þetta var leikur sem Skagastelpur lögðu mikla áherslu á að vinna til að halda sig í toppbaráttunni.

Það kom líka í ljós frá fyrstu mínútu að getumunur liðanna var mikill. Unnur Ýr Haraldsdóttir lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Mareni Leósdóttur strax á annarri mínútu leiksins og tveimur mínútum síðar hafði Unnur Ýr lagt upp sitt annað mark í leiknum en þá skoraði Bryndís Rún Þórólfsdóttir með góðu skoti.

Eftir þessa byrjun komst aðeins meira jafnvægi í leikinn. Hamrarnir komust meira í takt við leikinn og reyndu að skapa sér færi en Skagastelpur héldu áfram að sækja án þess að nýta færin sín.

Á 31. mínútu náðu Hamrarnir að minnka muninn þegar Emilía Eir Pálsdóttir átti sendingu inn í vítateig ÍA þar sem Aldís María Jóhannsdóttir skoraði með góðum skalla. Skagastelpur héldu áfram að spila sinn bolta og það skilaði marki á 41. mínútu þegar Unnur Ýr Haraldsdóttir skoraði eftir hrikaleg mistök í vörn Hamranna.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks átti Maren Leósdóttir sendingu á Bergdísi Fanneyju Einarsdóttur sem stakk vörn gestanna af og skoraði af öryggi. Staðan 4-1 fyrir ÍA í hálfleik.

Skagastelpur hófu seinni hálfleik svo eins og þann fyrri. Á 51. mínútu átti Fríða Halldórsdóttir gott langskot sem fór í þverslána og á marklínu hjá Hömrunum. Unnur Ýr Haraldsdóttir náði svo boltanum og skoraði. Samkvæmt leikskýrslu KSÍ var markið svo skráð á Unni Ýr.

Eftir þetta héldu Skagastelpur áfram að sækja og Hamrarnir áttu í vök að verjast. Lítið markvert gerðist þó fyrr en á 71. mínútu en þá gaf Fríða Halldórsdóttir boltann á Heiðrúnu Söru Guðmundsdóttur sem skaut af 25 metra færi efst í markhornið.

Eftir þetta datt leikurinn niður hægt og rólega og leikurinn endaði því með sanngjörnum 6-1 sigri ÍA.

Maður leiksins var valin Fríða Halldórsdóttir en hún fékk kvöldverð frá Rio Restaurant í verðlaun. Með henni á myndinni er Margrét Ákadóttir, stjórnarmaður KFÍA.

Edit Content
Edit Content
Edit Content