ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagastelpur unnu sannfærandi sigur á Tindastóli

Skagastelpur unnu sannfærandi sigur á Tindastóli

11/03/18

#2D2D33

Meistaraflokkur kvenna mætti Tindastól í síðasta leik liðsins í faxaflóamótinu í Akraneshöll. Með meira en tveggja marka sigri myndi ÍA tryggja sér sigur í B-riðli faxaflóamótsins.

Leikurinn hófst af miklum krafti af hálfu Skagastelpna og þær sköpuðu sér mörg færi sem ekki náðist að nýta. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 26. mínútu en þá skoraði Unnur Ýr Haraldsdóttir eftir mikla þvögu í vítateig Tindastóls.

Til marks um sóknarþunga ÍA í hálfleiknum átti liðið þrjú skot í þverslánna fyrir utan önnur dauðafæri. Gestirnir áttu fáar sóknir og sjaldan sem liðið ógnaði góðri vörn Skagastelpna. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir ÍA.

Seinni hálfleikur var svo mjög svipaður og sá seinni. ÍA var mun sterkari aðilinn og skapaði sér góð færi sem misfórust upp við mark Tindastóls. Gestirnir beittu svo skyndisóknum en náðu ekki að búa til hættuleg færi úr því.

Það var ekki fyrr en á lokamínútum sem flóðgáttirnar opnuðust. Á 76. mínútu var brotið á Róbertu Lilju Ísólfsdóttur inni í vítateig Tindastóls og vítaspyrna réttilega dæmd. Spyrnuna tók Unnur Ýr Haraldsdóttir en skotið endaði í þverslánni, fjórða sláarskot ÍA í leiknum.

Það kom þó ekki að sök því á 84. mínútu átti Aldís Ylfa Heimisdóttir góða sendingu innfyrir vörn Tindastóls. Þar fékk Fríða Halldórsdóttir boltann og skoraði með góðu skoti. Það liðu svo aðeins fjórar mínútur uns næsta mark leiksins kom en þá átti Fríða Halldórsdóttir góða stungusendingu inn á Mareni Leósdóttur sem skoraði af öryggi.

Það var svo á lokamínútu leiksins þegar fjórða og síðasta mark ÍA leit dagsins ljós. Þá átti Unnur Ýr Haraldsdóttir sendingu utan af kanti inn í vítateig gestanna þar sem Maren Leósdóttir vippaði boltanum yfir markvörð Tindastóls.

Leikurinn endaði því með verðskulduðum 4-0 sigri ÍA og stelpurnar enduðu faxaflóamótið með stæl þar sem þær unnu B-riðilinn á markatölu.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content