ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagastelpur unnu góðan sigur á Aftureldingu/Fram

Skagastelpur unnu góðan sigur á Aftureldingu/Fram

14/04/18

#2D2D33

Skagastelpur lönduðu þremur öruggum stigum gegn sameinuðu liði Aftureldingar og Fram í leik sem fram fór í Úlfarsárdal í dag. Leikurinn var í þriðju umferð deildarbikarsins og voru liðin fyrir leikinn í fyrsta og öðru sæti riðilsins. Skagastelpur með fullt hús eða sex stig en heimamenn með fjögur. Bæði lið munu spila í 1. deild í sumar en heimamenn eru nýliðar í deildinni.

Strax í upphafi leiks var ljóst að Skagamenn spiluðu til sigurs en Afturelding/Fram lagði upp með að verjast grimmt aftarlega á vellinum og beita skyndisóknum þegar færi gafst. Allan fyrri hálfleikinn sóttu Skagastelpur látlaust án þess þó að skapa sér mörg góð færi. Samspilið var of hægt og heimamönnum gekk ágætlega að stoppa sóknir okkar liðs. Afturelding/Fram átti örfáar sóknir sem vörn ÍA átti ekki í neinum vandræðum með að leysa. Í heild má segja að vörn ÍA og Tori markvörður hafi átt frekar rólegan dag.

Í hálfleik gátu liðin endurskipulagt sig vel því um 40 mínútna hlé var gert á leiknum vegna meiðsla dómara og varð að fá nýjan dómara á svæðið til að klára leikinn. Þjálfararnir, þær Helena og Aníta hafa lesið vel yfir okkar liði því stelpurnar voru mun beittari í seinni hálfleik. Blásið var til stórsóknar en góður markvörður og fjölskipuð vörn heimamanna varðist vel og stóðst lengi vel hvert áhlaupið af öðru.

Fyrsta og eina mark leiksins kom á 70. mínútu leiksins þegar Fríða Halldórsdóttir braust upp vinstra megin og alveg inn að marki. Renndi boltanum framhjá góðum markmanni heimamanna þar sem María Björk Ómarsdóttir var mætt og renndi boltanum í autt markið. Frábær sókn og fyrsta mark Maríu með meistaraflokki ÍA staðreynd. Skagastelpur héldu áfram að sækja sem eftir lifði leiks en tókst ekki að nýta fjölmörg önnur marktækifæri og leiknum lauk því með eins marks sigri ÍA.

Hér var um svokallaðan „iðnaðarsigur“ að ræða en stelpurnar hafa oft spilað betur en í þessum leik. Skagastelpur stjórnuðu leiknum frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og sigurinn var fyllilega verðskuldaður. Þessi leikur fer í reynslubankann hjá ungu og efnilegu liði og það er stutt í næsta leik því n.k. föstudag koma stelpurnar í Víking Ó. í heimsókn í Akraneshöllina. Stefnan er sett á sigur ÍA eins og í öllum öðrum leikjum og stuðningsmenn eru hvattir til að fjölmenna í höllina og styðja okkar lið.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content