ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagastelpur unnu baráttusigur á liði Fylkis

Skagastelpur unnu baráttusigur á liði Fylkis

23/08/18

#2D2D33

Meistaraflokkur kvenna spilaði í kvöld mikilvægan leik við Fylki í toppbaráttu Inkasso-deildarinnar í Akraneshöll. ÍA var í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig og Fylkir í efsta sæti með 36 stig, Keflavík var svo í öðru sæti með 34 stig. Þessi leikur gat því skorið úr um möguleikann á að stelpurnar væru enn í baráttunni um sæti í Pepsi-deildinni.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti af hálfu ÍA og strax á fjórðu mínútu kom fyrsta mark leiksins þegar Maren Leósdóttir átti bylmingsskot af 20 metra færi sem endaði efst í markhorninu.

Hvorugt liðið ætlaði þó að gefa neitt eftir og barist var um hvern bolta. Mikil stöðubarátta var í leiknum og bæði lið voru að sækja og reyna að skapa sér markverð færi. Skagastelpur fengu nokkur ágæt hálffæri í hálfleiknum en ekki náðist að koma boltanum í netið.

Fylkir átti nokkrar góðar sóknir í fyrri hálfleik en vörn ÍA stóð vaktina með prýði og náði að bjarga þegar þörf var á. Tori Ornela stóð svo fyrir sínu í markinu og varði nokkrum sinnum virkilega vel. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir ÍA.

Seinni hálfleikur var svo mjög áþekkur þeim fyrri. Fylkir sótti meira enda hafði liðið skorað flest mörkin í deildinni en sem var vörn ÍA mjög öflug og hélt sóknarmönnum gestanna niðri með sterkum varnarleik.

Skagastelpur áttu nokkrar skyndisóknir eftir því sem leið á hálfleikinn en lítið kom úr þeim sóknarlotum. Fylkir sótti af krafti en ÍA barðist af hörku í vörninni og náði alltaf að bjarga áður en gestirnir næðu að nýta sín marktækifæri.

Þegar leið að lokum leiksins fór Fylkir að sækja enn meira sem gaf ÍA tækifæri á góðum gagnsóknum. Á 90. mínútu náði Maren Leósdóttir boltanum á eigin vallarhelmingi og kom honum á Unni Ýr Haraldsdóttur. Hún lék boltanum upp völlinn, lék á einn varnarmann Fylkis og komst inn í vítateig þar sem hún skoraði af öryggi.

Eftir þetta voru Skagastelpur óheppnar að bæta ekki þriðja markinu við en leikurinn var svo flautaður af og ÍA vann frábæran baráttusigur á Fylki 2-0. Þar með er toppbaráttan orðin opin og stelpurnar eiga enn möguleika á að komast upp í Pepsi-deildina.

Edit Content
Edit Content
Edit Content