ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagastelpur töpuðu gegn Keflavík í baráttuleik

Skagastelpur töpuðu gegn Keflavík í baráttuleik

01/05/18

#2D2D33

Tap í baráttuleik

Stelpurnar okkar urðu að sætta sig við eins marks ósigur í úrslitaleik C-riðils í Lengjubikarnum gegn liði Keflavíkur í Reykjaneshöllinni fyrr í dag. Bæði lið voru fyrir leikinn ósigruð í keppninni og áttu menn því von á hörkubaráttu í úrslitaleiknum. Sú varð raunin og kom sigurmark heimastúlkna á síðustu mínútu leiksins.

Strax í byrjun var ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt. Keflvíkingar byrjuðu með látum og pressuðu okkar lið hátt upp á vellinum. Það voru þó Skagakonur sem skoruðu fyrsta markið en þar var að verki miðjumaðurinn ungi og efnilegi, Sigrún Eva Sigurðardóttir. Gott skot eftir snarpa sókn og virkilega vel gert hjá okkar mönnum.

Aníta Lind Daníelsdóttir jafnaði metin á 19 mínútu fyrir Keflavík þegar hún skoraði með föstu skoti í bláhornið eftir þunga sókn heimamanna. Óverjandi skot fyrir Tori í markinu. Jöfnunarmark Keflavíkur var í takt við gang leiksins en Skagastelpur höfðu fallið of mikið aftur og gefið heimamönnum eftir miðjusvæðið.

Keflavík tók síðan forystu á 33. mínútu eftir slæm varnarmistök Skagastúlkna. Löng sending barst upp völlinn og inn fyrir vörn ÍA þar sem unglingalandsliðsmaðurinn Sveindís J. Jónsdóttir skaust á milli varnarmanna og renndi boltanum framhjá markmanni okkar.

Heimastúlkur leiddu í hálfleik 2-1.

Í síðari hálfleik skiptust liðin á að sækja og mikil stöðubarátta var um allan völl. Á 59. mínútu jafnaði bakvörðurinn öflugi, Fríða Halldórsdóttir leikinn fyrir okkar lið með hörku skoti. Jöfnunarmarkið var verðskuldað en Skagastelpur sóttu mjög í sig veðrið eftir því sem á leið á leikinn.

Sigurmark Keflavíkur kom eftir hornspyrnu á lokamínútu venjulegs leiktíma en þá skoraði Marín Rún Guðmundsdóttir eftir að Skagastelpum mistókst að hreinsa boltann út úr vítateignum. 3-2 ósigur urðu lokatölur leiksins.

Sárt tap en ungt og efnilegt lið okkar tekur út úr þessum leik dýrmæta reynslu sem mun nýtast liðinu í harðri keppni í 1. deildinni í sumar. Fyrsti leikur liðsins verður gegn Haukum á Ásvöllum þann 11. maí n.k. og hvetjum við alla stuðningsmenn ÍA að standa þétt á bakvið liðið í sumar. Áfram ÍA.

Edit Content
Edit Content
Edit Content