Meistaraflokkur kvenna spilaði sinn sjötta leik í Inkasso-deildinni í dag þegar liðið heimsótti Fylki á Fylkisvöllinn. Bæði lið voru í efri hluta deildarinnar svo ljóst var að baráttan yrði í fyrirrúmi í leiknum.
Skemmst er frá því að segja að Fylkir kom mjög vel stemmdur inn í leikinn og strax á sjöttu mínútu kom fyrsta leiksins þegar Marija Radojicic skoraði gott mark. Skagastelpur reyndu að komast betur inn í leikinn en Fylkir átti hættulegri sóknir sem ekkert varð úr.
Á 30. mínútu kom Kristín Þóra Birgisdóttir Fylki í 2-0 og staðan var orðin erfið fyrir ÍA. Ekki var þó gefist upp og Bergdís Fanney Einarsdóttir skoraði gott mark á 35. mínútu eftir góðan undirbúning Marenar Leósdóttur.
Allt útlit var fyrir spennandi leik en á lokamínútum fyrri hálfleiks gerði Fylkir í raun út um leikinn með tveimur mörkum, annars vegar frá Kristínu Þóru Birgisdóttur og hins vegar Hönnu Maríu Jóhannsdóttur. Staðan í hálfleik var því 4-1 fyrir Fylki.
Töluvert meira jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik. Skagastelpur reyndu sitt besta og sköpuðu ágæt marktækifæri sem náðist ekki að nýta og Fylkir átti nokkrar sóknir sem strönduðu á vörn ÍA.
Heimamenn héldu bara sínu enda var liðið í mjög góðri stöðu eftir fyrir hálfleik. Leikurinn fjaraði svo hægt og rólega út og Fylkir vann frekar öruggan 4-1 sigur á ÍA.