Meistaraflokkur kvenna spilaði sinn níunda leik í Inkasso-deildinni þegar liðið heimsótti Aftureldingu/Fram á Varmárvöll. ÍA var í baráttu í efri hluta deildarinnar en Afturelding/Fram var um miðja deildina svo þetta var leikur sem Skagastelpur urðu eiginlega að vinna til að halda sig í toppbaráttunni.
Skagastelpur byrjuðu leikinn af krafti og Maren Leósdóttir átti skot í stöng strax í fyrstu sókn leiksins. Afturelding/Fram barðist þó á fullu og gaf ÍA ekkert eftir í leiknum. Liðið átti nokkrar virkilega góðar sóknir í hálfleiknum sem vörn ÍA átti í fullu tré með að verjast.
Eftir því sem leið á hálfleikinn áttu Skagastelpur þó hættulegri sóknir en ekki náðist að nýta færin þegar þau gáfust. Staðan í hálfleik var því 0-0.
Afturelding/Fram byrjaði seinni hálfleikinn vel og strax á 49. mínútu skoraði Samira Suleman ágætt mark eftir undirbúning frá Stefaníu Valdimarsdóttur. Heimamenn sköpuðu sér svo nokkur ágæt færi sem ekki náðist að klára.
Skagastelpur náðu svo að jafna metin á 63. mínútu þegar Bergdís Fanney Einarsdóttir skoraði beint úr hornspyrnu. Gæfan var svo aftur með ÍA nokkrum mínútum síðar þegar Bergdís Fanney komst ein í gegnum vörn heimamanna og skoraði af miklu öryggi.
Skömmu síðar náði Afturelding/Fram svo að jafna metin en þá náði Janet Egyr að skora eftir undirbúning frá Gunnhildi Ómarsdóttir. Staðan orðin 2-2 eftir magnþrungnar mínútur.
Það sem eftir lifði leiks sóttu bæði lið af krafti og reyndu að ná sigurmarkinu. Þrátt fyrir góð færi á báða bóga náðist ekki að skora fleiri mörk og því endaði leikurinn með 2-2 jafntefli í miklum baráttuleik.