Meistaraflokkur karla sótti Selfyssinga heim í dag í 32-liða úrslitum bikarkeppni KSÍ en leikurinn fór fram á gervigrasvellinum á Selfoss.
Strákarnir hófu leikinn af miklum krafti og strax á annarri mínútu leiksins komst ÍA yfir þegar Arnar Már Guðjónsson skoraði með bylmingsskoti, glæsilegt mark neðst í markhornið. Ekki leið nema mínúta fram að næsta marki en þá braut markvörður Selfyssinga klaufalega á Ólafi Val Valdimarssyni innan vítateigs Selfyssinga. Vítaspyrna var réttilega dæmd og úr henni skoraði Þórður Þorsteinn Þórðarson af öryggi.
Þessi frábæra byrjun sló heimamenn algjörlega út af laginu og það tók þá langan tíma að komast aftur inn í leikinn. Þeim tókst þó að minnka muninn á 25. mínútu þegar Gilles Ondo skoraði með ágætum skalla eftir baráttu við varnarmenn ÍA.
Skagamenn voru þó sterkari aðilinn í hálfleiknum og skapaði sér nokkur álitleg færi. Á 43. mínútu átti Steinar Þorsteinsson stungusendingu inn á Stefán Teit Þórðarson sem skoraði með góðu skoti efst í markhornið. Staðan 3-1 fyrir ÍA í hálfleik sem var verðskulduð forysta.
Seinni hálfleikur var ekki jafn fjörugur og sá fyrri. Skagamenn sátu aðeins til baka og beittu eitruðum skyndisóknum sem ógnuðu marki Selfyssinga oft. Heimamenn spiluðu á köflum ágætan fótbolta en þegar kom að síðasta þriðjungi vallarins vantaði töluvert upp á að þeir næðu að brjóta sterka vörn ÍA niður.
Á 70. mínútu var Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, rekinn af varamannabekknum með beint rautt spjald fyrir mótmæli eftir að Skagamenn fengu ekki aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Selfoss. Um ansi strangan dóm var að ræða þar sem ekki var betur séð en klárlega hefði verið brotið á leikmanni ÍA.
Skagamenn buguðust þó ekki við þetta heldur héldu áfram að spila sinn bolta. Ótrúlegt var að ekki tækist að nýta eitthvað af þeim marktækifærum sem sköpuðust en það tókst að lokum á 86. mínútu. Þá átti Hörður Ingi Gunnarsson langa sendingu fram völlinn beint á Steinar Þorsteinsson sem var einn á auðum sjó á vallarhelmingi Selfoss. Hann átti ekki í erfiðleikum með að skora gott mark og þannig endilega gera út um leikinn.
Leikurinn endaði þannig 1-4 fyrir ÍA og Skagamenn verða í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit bikarkeppninnar.