ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn unnu stórsigur á Magna frá Grenivík

Skagamenn unnu stórsigur á Magna frá Grenivík

20/06/18

#2D2D33

Skagamenn spiluðu í kvöld við Magna frá Grenivík á Norðurálsvelli í áttundu umferð Inkasso-deildarinnar. ÍA hafði 17 stig eftir sjö leiki og Magni var á botni deildarinnar svo ljóst var að það mátti ekki vanmeta andstæðinginn.

Það var svo greinilegt frá fyrstu mínútu leiksins að leikurinn yrði erfiður fyrir gestina. Skagamenn voru mjög öflugir og sóttu mikið á liða Magna sem reyndi að verjast af krafti.

Eitthvað varð undan að láta og það gerðist á 16. mínútu þegar ÍA skoraði fyrsta mark leiksins. Þá áttu Bjarki Steinn Bjarkason og Hörður Ingi Gunnarsson gott samspil upp allan vallarhelming gestanna uns boltinn barst inn í vítateig þar sem Albert Hafsteinsson skoraði með góðu skoti.

Einungis þremur mínútum síðar leit annað mark leiksins dagsins ljós en þá átti Albert Hafsteinsson góða stundusendingu inn á Bjarka Stein Bjarkason sem skoraði af öryggi framhjá markverði Magna. Gestirnir komust aðeins meira í takt við leikinn eftir þetta en náðu frekar lítið að ógna vörn ÍA.

Skagamenn héldu áfram að skapa sér færi og á 43. mínútu kom þriðja markið en þá átti Ragnar Leósson sendingu á Steinar Þorsteinsson sem lék á varnarmenn Magna og skoraði með skoti neðst í markhornið. Staðan í hálfleik var því 3-0 fyrir ÍA og munurinn hefði getað verið meiri.

Eins og fyrri hálfleikur var fjörugur var sá síðari rólegur og daufur framan af. Skagamenn virtust mjög ánægðir með að halda stöðunni og Magni náði ekki að skapa sér nein markverð færi þrátt fyrir betri spilamennsku en í fyrri hálfleik.

Skagamenn vöknuðu til lífsins og fóru að spila aftur eins og liðið gerði framan af leik. Það skilaði svo fjórða markinu á 72. mínútu þegar dæmd var vítaspyrna á varnarmann Magna fyrir að verja skot frá Steinari Þorsteinssyni með hendi. Úr vítaspyrnunni skoraði Þórður Þorsteinn Þórðarson af öryggi.

Skömmu síðar kom svo fimmta mark ÍA en þá átti Steinar Þorsteinsson góða sendingu inn í vítateig Magna þar sem Albert Hafsteinsson fékk boltann, lék á varnarmann og skoraði með því að vippa boltanum yfir markvörð Magna.

Skagamenn sigldu sigrinum svo heim í rólegheitum eftir þetta. Fátt markvert gerðist og ÍA vann verðskuldaðan stórsigur á Magna 5-0 í leik þar sem spilamennskan var með ágætum á löngum köflum í leiknum.

 

Maður leiksins var valinn Albert Hafsteinsson en hann fékk gistingu frá Stay West í verðlaun. Með honum á myndinni er Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður KFÍA.

Edit Content
Edit Content
Edit Content