Skagamenn spiluðu í kvöld við Njarðvík á Njarðtaksvellinum í 15. umferð Inkasso-deildarinnar. ÍA var í harðri toppbaráttu á meðan Njarðvík var í botnbaráttu svo sigur var mikilvægur fyrir bæði lið í dag.
Leikurinn byrjaði frekar rólega og baráttan var í fyrirrúmi. Á níundu mínútu kom fyrsta mark leiksins þegar Jeppe Hansen lék boltanum upp að vítateig Njarðvíkur og átti fast skot sem söng í netinu.
Eftir markið áttu Skagamenn góðar sóknir en náðu ekki að nýta þau tækifæri sem sköpuðust. Njarðvík náði ekki að skapa sér mörg álitleg færi en vörn ÍA bjargaði svo þegar þörf var á. Staðan í hálfleik var 0-1 fyrir ÍA.
Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn svo af krafti og það skilaði marki á 52. mínútu þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson tók hornspyrnu að marki Njarðvíkur þar sem Einar Logi Einarsson stökk manna hæst og stangaði boltann í netið.
ÍA skapaði sér svo fjölda góðra marktækifæra á næstu mínútum til að klára leikinn. Besta færið fékk Stefán Teitur Þórðarson eftir góða sendingu frá Jeppe Hansen en markvörður Njarðvíkur náði að bjarga með frábærri markvörslu.
Njarðvíkingar fóru svo að komast betur í takt við leikinn eftir því sem leið að lokum hans. Á 86. mínútu varð Þórður Þorsteinn Þórðarson fyrir því óláni að skora klaufalegt sjálfsmark og heimamenn komnir með möguleika á stigi.
Njarðvíkingar reyndu svo allt til að ná jöfnunarmarkinu og það tókst næstum því í uppbótartíma þegar þeir fengu dauðafæri en Þórður Þorsteinn Þórðarson náði að bjarga á marklínu á síðustu stundu.
Skömmu síðar var flautað til leiksloka og Skagamenn sigldu heim góðum og nauðsynlegum útisigri á Njarðvík 1-2. Þar með er ÍA aftur komið á topp Inkasso-deildarinnar og nú er bara að klára tímabilið á þeim nótum.