ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn unnu sinn fimmta leik í röð í Inkasso-deildinni

Skagamenn unnu sinn fimmta leik í röð í Inkasso-deildinni

18/08/18

#2D2D33

Skagamenn spiluðu í dag við ÍR á Hertzvellinum í 17. umferð Inkasso-deildarinnar. ÍA var í harðri toppbaráttu á meðan ÍR var í botnbaráttu svo þrjú stig voru nauðsynleg fyrir bæði lið.

Skemmst er frá því að segja að fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill. Skagamenn voru sterkari aðilinn og náðu að skapa sér nokkur ágæt marktækifæri en ekki náðist að nýta þau. ÍR spilaði frekar aftarlega og náði sjaldan að ógna marki ÍA en vörnin tók á því þegar á þurfti að halda.

Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum en á 25. mínútu var ísinn brotinn þegar Skagamenn komust loks yfir. Þá átti Jeppe Hansen frábæran sprett upp hægri kantinn þar sem hann lék sér að varnarmanni ÍR, gaf boltann inn í vítateig þar sem Stefán Teitur Þórðarson náði með herkjum að afgreiða boltann í netið.

Fátt markvert gerðist eftir þetta nema að bæði lið sköpuðu sér eitt og eitt hálffæri sem lítið varð úr. Staðan í hálfleik var því 0-1 fyrir ÍA.

Töluvert jafnræði var svo með liðunum framan af seinni hálfleik. ÍR reyndi að skapa sér góð færi en sóknarlotur liðsins voru oftast frekar ómarkvissar og sköpuðu litla hættu fyrir vörn ÍA. Skagamenn fengu sín marktækifæri en alltaf vantaði aðeins upp á til að klára leikinn.

Það var svo á 73. mínútu sem ÍA gerði út um leikinn en þá átti Hallur Flosason góða sendingu inn í vítateig ÍR þar sem Jeppe Hansen var algjörlega einn á auðum sjó og gat ekki annað en skorað sitt fjórða mark fyrir ÍA í fimm leikjum.

Það sem eftir lifði leiks voru Skagamenn frekar nær því að bæta þriðja marki sínu við en ÍR að minnka muninn. Einar Logi Einarsson fékk besta færið en góður skalli hans small í stönginni þegar töluvert var liðið á leikinn.

Áður en leikurinn var flautaður af var svo Gísli Martin Sigurðsson rekinn útaf hjá ÍR fyrir mótmæli í garð dómara leiksins. Í framhaldinu lauk svo leiknum og ÍA vann frekar sanngjarnan 0-2 sigur á liði ÍR sem er enn í harðri fallbaráttu.

Skagamenn eru enn í efsta sæti Inkasso-deildarinnar og eru nú fimm stig í þriðja sæti deildarinnar. Liðið er því í verulega góðum málum en nóg er eftir af keppnistímabilinu enn sem komið er.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content