ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn unnu öruggan sigur á Selfyssingum í Inkasso-deildinni

Skagamenn unnu öruggan sigur á Selfyssingum í Inkasso-deildinni

05/07/18

#2D2D33

Skagamenn spiluðu í kvöld við Selfoss á Norðurálsvelli í tíundu umferð Inkasso-deildarinnar. ÍA hafði 20 stig eftir níu leiki og Selfoss var í botnbaráttunni svo ljóst var að um baráttuleik yrði að ræða.

Ljóst var frá fyrstu mínútu að hvorugt liðið ætlaði að gefa neitt eftir í leiknum. Selfoss var með vel skipulagða vörn og beitti skyndisóknum og Skagamenn reyndu að brjóta niður varnarmúr gestanna. Mikil barátta var í leiknum og leikmenn voru ekki að skapa sér mörg marktækifæri framan af en ÍA var þó mun nær því.

Það var ekki fyrr en á 38. mínútu sem múrinn var brotinn og fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Þá tók Albert Hafsteinsson góða aukaspyrnu inn í vítateig Selfoss þar sem Steinar Þorsteinsson skallaði boltann áfram í átt að markinu. Þar var Arnór Snær Guðmundsson vel staðsettur og kom boltanum í markið.

Það var svo á lokamínútu fyrri hálfleiks sem annað mark leiksins kom. Þá tók Steinar Þorsteinsson hornspyrnu og eftir þvögu í vítateig Selfoss kom Arnór Snær Guðmundsson boltanum í markið. Skagamenn leiddu því 2-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var svo eign Skagamanna að langmestu leyti. Selfyssingar þurftu að sækja meira til að reyna að minnka muninn en voru aldrei sérstaklega nálægt því að skora framhjá sterkri vörn ÍA.

Skagamenn voru ótrúlegir klaufar að nýta ekki þau fjöldamörgu færi sem þeir fengu í hálfleiknum. Besta færið kom undir lok leiksins en þá skaut Alexander Már Þorláksson framhjá í dauðafæri eftir góða sendingu frá Þórði Þorsteini Þórðarsyni.

Þrátt fyrir góðar sóknir af hálfu heimamanna voru ekki fleiri mörk skoruð í leiknum og ÍA vann því 2-0 og er enn á ný komið í efsta sæti Inkasso-deildarinnar.

Arnór Snær Guðmundsson var valinn maður leiksins að leik loknum og Sævar Freyr Þráinsson varaformaður KFÍA óskaði honum til hamingju með þá nafnbót.

Edit Content
Edit Content
Edit Content