Skagamenn spiluðu í kvöld við Fram á Norðurálsvellinum í 16. umferð Inkasso-deildarinnar. Eimskip var styrktaraðili leiksins og færum við þeim bestu þakkir fyrir. ÍA var í harðri toppbaráttu á meðan Fram voru um miðja deild svo þrjú stig voru nauðsynleg fyrir okkar menn.
Skemmst er frá því að segja að fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill. Skagamenn voru sterkari aðilinn og náðu að skapa sér nokkur ágæt marktækifæri en ekki náðist að nýta þau. Framarar spiluðu aftarlega og náðu sjaldan að ógna marki ÍA en vörnin tók á því þegar á þurfti að halda.
Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum og til merkis um hvernig fyrri hálfleikur þróaðist kom besta færi hálfleiksins undir lok hans þegar Stefán Teitur Þórðarson átti gott skot úr aukaspyrnu sem markvörður Fram mátti hafa sig allan við að verja. Staðan í hálfleik var því 0-0.
Skagamenn komu svo mjög vel stemmdir í seinni hálfleik. Liðið skapaði sér ágæt færi og á 59. mínútu var ísinn loks brotinn þegar Steinar Þorsteinsson lék sér að varnarmanni Fram, kom með góða sendingu inn í vítateig þar sem Stefán Teitur Þórðarson stóð fyrir opnu marki og gat ekki annað en skorað.
Framarar virtust vera slegnir útaf laginu eftir markið og aðeins fjórum mínútum síðar kom annað mark ÍA. Þá átti Albert Hafsteinsson stungusendingu innfyrir vörn Fram þar sem Stefán Teitur Þórðarson komst einn á móti markverðinum og skoraði af öryggi.
Það sem eftir lifði leiks voru Skagamenn mun nær því að bæta þriðja markinu við en Framarar að ógna vörn ÍA. Nokkur ágæt færi misfórust og Steinar Þorsteinsson skoraði mark sem dæmt var af vegna rangstöðu.
Leikurinn fjaraði í rólegheitum út eftir það og endaði með öruggum sigri ÍA 2-0. Skagamenn halda enn toppsætinu í deildinni en framundan er mikil barátta um sæti í Pepsi-deildinni.
Maður leiksins var valinn Stefán Teitur Þórðarson en hann fékk gjafabréf frá Bifreiðastöð ÞÞÞ í verðlaun. Með honum á myndinni er Magnús Guðmundsson, formaður stjórnar KFÍA.