Meistaraflokkur karla mætti KA í átjándu umferð Íslandsmótsins sem fram fór við frekar erfiðar aðstæður á Norðurálsvelli en hávaðarok var þvert á völlinn sem hafði áhrif á gæði leiksins.
Fyrri hálfleikur var frekar rólegur framan af og það var ekki mikið um opin færi af hálfu beggja liða, frekar var um langskot að ræða sem ógnuðu lítið. Það var ekki fyrr en á 34. mínútu þegar fyrsta dauðafæri leiksins kom en þá átti Steinar Þorsteinsson skot að marki KA fyrir utan vítateig. Srdjan Rajkovic, markvörður KA, varði boltann út í teig þar sem Stefán Teitur Þórðarson var einn og óvaldaður en skot hans fór beint í fangið á Rajkovic.
Skagamenn héldu áfram að sækja og á 40. mínútu var dæmd vítaspyrna á Almarr Ormarsson fyrir að brjóta á Steinari Þorsteinssyni. Vítaspyrnuna tók Þórður Þorsteinn Þórðarson en Srdjan Rajkovic varði glæsilega frá honum sem og annað skot frá Ólafi Val Valdimarssyni sem hafði náð frákastinu.
Þrátt fyrir að ÍA væri sterkari aðilinn og skapaði sér góð færi var staðan 0-0 í hálfleik.
KA byrjaði seinni hálfleik af aðeins meiri krafti en líkt og í fyrri hálfleik sköpuðu þeir sér sárafá færi og náðu ekki að brjóta sterka vörn ÍA niður.
Skagamenn komust fljótt meira inn í leikinn og beittu langskotum líkt og nokkuð hafði verið af í fyrri hálfleik. Slíkt langskot átti Arnar Már Guðjónsson á 60. mínútu en Srdjan Rajkovic varði boltann út í vítateig þar sem Stefán Teitur Þórðarson náði að skora með góðu skoti.
KA hóf nú frekari sóknarlotur til að reyna að jafna metin en þá opnaðist vörn þeirra nokkuð. Á 70. mínútu kom annað mark ÍA þegar Albert Hafsteinsson átti gott skot sem Srdjan Rajkovic varði en enn of aftur missti hann boltann út í vítateig. Steinar Þorsteinsson náði frákastinu og þakkaði fyrir sig með því að skora af öryggi.
Eftir þetta drógu Skagamenn sig aðeins til baka og leyfðu KA að stjórna leiknum án þess að skapa sér markverð færi. ÍA fékk nokkur hálffæri en vörn KA bjargaði því á síðustu stundu. Á 90. mínútu var svo Callum Williams réttilega rekinn útaf með beint rautt spjald eftir mjög grófa tæklingu á Steinari Þorsteinssyni.
Í uppbótartíma skoraði Elfar Árni Aðalsteinsson svo með skalla fyrir KA en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.
Leikurinn var í framhaldinu flautaður af og Skagamenn fögnuðu 2-0 sigri, fyrsta sigrinum í Pepsi-deild karla í tæpa þrjá mánuði. Þetta voru kærkomin þrjú stig og enn er von í deildinni.
Að vanda var valinn maður leiksins úr Skagaliðinu og að þessu sinni varð Steinar Þorsteinsson fyrir valinu. Hann fékk að launum gjafabréf frá Norðanfiski.
Næsti leikur er svo gegn Fjölni á Extra-vellinum fimmtudaginn 14. september kl. 17.