ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn unnu góðan útisigur á Magna frá Grenivík

Skagamenn unnu góðan útisigur á Magna frá Grenivík

01/09/18

#2D2D33

Skagamenn spiluðu í dag við Magna á Grenivíkurvelli í 19. umferð Inkasso-deildarinnar. ÍA var í harðri toppbaráttu á meðan Magni var í mikilli botnbaráttu svo þrjú stig voru nauðsynleg fyrir bæði lið.

ÍA byrjaði leikinn af krafti og strax á sjöttu mínútu átti Stefán Teitur Þórðarson gott skot í stöngina hjá heimamönnum.

Það var svo aðeins tveimur mínútum síðar þegar fyrsta mark leiksins kom en þá átti Steinar Þorsteinsson ágætt skot sem markvörður Magna varði út í vítateig. Þar var Stefán Teitur Þórðarson fyrstur til að átta sig og skoraði af öryggi.

Magnamenn komust betur í leikinn og á 14. mínútu jöfnuðu þeir metin þegar Lars Óli Jessen skoraði eftir góðan undirbúning frá Kristni Þór Rósbergssyni.

Skagamenn voru þó ekki lengi að svara fyrir sig því aðeins mínútu síðar átti Ólafur Valur Valdimarsson góða sendingu utan af vinstri kanti inn í vítateig Magna þar sem Jeppe Hansen var einn á auðum sjó og skoraði með föstu skoti.

Það sem eftir lifði hálfleiksins fengu bæði lið ákjósanleg færi til að skora fleiri mörk en þrátt fyrir góðar tilraunir tókst það ekki. Staðan í hálfleik var því 1-2 fyrir ÍA.

Seinni hálfleikur hófst svo með látum en þá átti Ólafur Valur Valdimarsson sendingu á Stefán Teit Þórðarson, sem lék á nokkra varnarmenn Magna og skoraði með hnitmiðuðu skoti. Frábært mark hjá Skagamönnum.

Magni svaraði svo fyrir strax tveimur mínútum síðar þegar Kristinn Þór Rósbergsson skoraði eftir ágæta sendingu frá Lars Óla Jessen. Heimamenn strax komnir aftur inn í leikinn.

Eftir þennan kafla var töluvert jafnræði með liðunum þar sem baráttan var í fyrirrúmi. Magni fékk nokkur ágæt færi til að jafna metin en sterk vörn ÍA náði að verjast því sem þörf var á.

Skagamenn náðu að skapa sér álitleg færi í hálfleiknum sem misfórust, sérstaklega fengu Stefán Teitur Þórðarson og Steinar Þorsteinsson góð marktækifæri en náðu ekki að nýta sér þau.

Leikurinn fjaraði svo hægt og rólega út þar sem heimamenn náðu ekki að ógna marki ÍA mikið. Leikurinn endaði því frekar sanngjörnum sigri ÍA 2-3 og Skagamenn búnir að endurheimta efsta sætið í deildinni á nýjan leik.

Edit Content
Edit Content
Edit Content