ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn unnu góðan útisigur á Haukum

Skagamenn unnu góðan útisigur á Haukum

01/08/18

#2D2D33

Skagamenn spiluðu í kvöld við Hauka á Ásvöllum í 14. umferð Inkasso-deildarinnar. ÍA var í harðri toppbaráttu á meðan Haukar voru um miðja deild svo ljóst var að ekkert annað en þrjú stig komu til greina í dag.

Leikurinn byrjaði frekar rólega og bæði lið börðust um hvern bolta. Á áttundu mínútu kom fyrsta mark leiksins þegar algjört einbeitingarleysi var á milli Arnórs Snæs Guðmundssonar og Árna Snæs Ólafssonar í vörn ÍA sem endaði með því að Aron Freyr Róbertsson komst á milli þeirra og kom boltanum í markið.

Skagamenn fóru nú að sækja af meiri krafti og skapa sér nokkur færi. Sérstaklega voru hornspyrnur ÍA hættulegar í hálfleiknum og úr einni slíkri jafnaði liðið á 27. mínútu. Þá tók Þórður Þorsteinn Þórðarson hornspyrnu sem Arnór Snær Guðmundsson náði að skalla fyrir mark Hauka. Þar var Jeppe Hansen vel staðsettur og skoraði með góðum skalla, sitt fyrsta mark fyrir liðið.

ÍA hélt svo áfram að sækja og á 38. mínútu kom annað mark liðsins þegar Ólafur Valur Valdimarsson átti skot af 25 metra færi sem virtist frekar saklaust en endaði í markinu án þess að markvörður né vörn Hauka gerðu tilraun til að ná til boltans.

Sóknarleikur Hauka var mjög bitlítill í fyrri hálfleik og þeir náðu sárasjaldan að skapa sér einhver færi. Skagamenn voru á köflum klaufar að nýta ekki sín færi betur en staðan í hálfleik var 1-2 fyrir okkar menn.

Seinni hálfleikur hófst svo með krafti því strax á 48. mínútu gaf Arnar Már Guðjónsson góða fyrirgjöf í vítateig Hauka þar sem Jeppe Hansen stökk hæst og skallaði af öryggi í markið.

Segja má að leikurinn hafi dottið algjörlega niður eftir þetta mark. Haukar voru aldrei nálægt því að skapa sér góð færi eða brjóta sterka vörn ÍA niður. Skagamenn áttu nokkrar sóknarlotur en að mestu leyti héldu þeir boltanum og létu leiktímann ganga.

Skemmst er frá því að segja að ÍA sigldi mjög öruggum 1-3 útisigri á Haukum heim í kvöld. Liðið spilaði eins vel og þurfti og nýju leikmennirnir falla vel í leikhópinn. Staðan í deildinni er afar jöfn svo þessi sigur var nauðsynlegur.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content