ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn unnu góðan sigur á Víking R

Skagamenn unnu góðan sigur á Víking R

13/03/18

#2D2D33

Skagamenn mættu Víking R í síðasta leik Skagamanna í Lengjubikarnum sem fram fór í Akraneshöll í kvöld.

ÍA byrjaði mun betur í leiknum og það skilaði marki strax á sjöundu mínútu leiksins þegar Hörður Ingi Gunnarsson lék boltanum upp vinstri kantinn. Hörður Ingi komst upp að vítateig Víkings og gaf boltann svo út á Ragnar Leósson sem skoraði með glæsilegu bylmingsskoti af 25 metra færi.

ÍA skapaði sér mun hættulegri marktækifæri í fyrri hálfleik en náðu ekki að nýta færin þrátt fyrir góða spilamennsku. Víkingar áttu nokkrar ágætar sóknir en vörn Skagamanna náði ávallt að halda þegar þörf var á. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir ÍA.

Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum framan af en fátt var um opin marktækifæri. Víkingar sköpuðu sér fá færi og ógnuðu marki ÍA lítið. Skagamenn voru ávallt líklegri til að bæta við mörkum og á 76. mínútu kom loksins annað mark leiksins þegar Einar Logi Einarsson vann boltann á vallarhelmingi Víkings af harðfylgi. Hann sendi boltann á Stefán Teit Þórðarson sem komst einn á móti markverði Víkings og skoraði af öryggi.

ÍA kláraði svo leikinn endanlega undir lok leiksins þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson átti góða fyrirgjöf inn í vítateig Víkings þar sem varamaðurinn Hilmar Halldórsson var einn á auðum sjó og skoraði í autt markið.

Leikurinn endaði þannig með 3-0 sigri Skagamanna, sem var ekki of stór miðað við gang leiksins og spilamennsku okkar manna í kvöld.

ÍA lýkur þannig keppni í Lengjubikarnum þetta árið í öðru sæti A-riðils með níu stig og markatöluna 13-5.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content