Skagamenn spiluðu í dag við Framara í Safamýri í fimmtu umferð Inkasso-deildarinnar. ÍA hafði 10 stig eftir fjóra leiki og Framarar voru með sjö stig svo ljóst var að um baráttuleik yrði að ræða.
Það sást snemma í fyrri hálfleik að hvorugt liðið ætlaði að gefa neitt eftir í leiknum. Mikil barátta var um hvern bolta og fátt var um fína drætti framan af. Skagamenn sköpuðu sér samt nokkur álitleg færi en ekki náðist að klára færin þrátt fyrir góðar sóknir á köflum.
Sóknarleikur Framara var frekar bitlítill í fyrri hálfleik og fá marktækifæri sköpuðust sem ógnuðu vörn ÍA að einhverju leyti. Staðan í hálfleik var því 0-0 þar sem hvorugt liðið fékk mikið af færum.
Skagamenn komu svo sterkir inn í seinni hálfleik og það skilaði mark strax á 49. mínútu þegar Bjarki Steinn Bjarkason átti góða rispu upp kantinn og sendi boltann í vítateig Fram. Boltinn barst til Þórðar Þorsteins Þórðarsonar sem sem skoraði með góðu skoti í fjærhornið. Eftir markið féllu okkar menn aðeins aftar á völlinn og leyfðu heimamönnum að vera meira með boltann.
Eftir því sem leið á seinni hálfleik sóttu Framarar af meiri krafti og það skilaði vítaspyrnu á 68. mínútu þegar brotið var á sóknarmanni Fram í vítateig ÍA. Vítaspyrnuna tók Guðmundur Magnússon en Árni Snær Ólafsson gerði sér lítið fyrir og varði skotið af stakri snilld.
Framarar héldu svo áfram að sækja og reyna að ná jöfnunarmarki en þeir náðu aldrei að brjóta sterka vörn ÍA niður. Skagamenn beittu svo skyndisóknum undir lok leiksins og sköpuðu sér ágæt færi sem misfórust.
Skömmu síðar var leikurinn svo flautaður af og Skagamenn unnu mikinn baráttusigur í Safamýri 0-1. 13 stig eru nú komin í hús og spilamennska liðsins er með ágætum.