ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn unnu frábæran sigur á Fjölnismönnum

Skagamenn unnu frábæran sigur á Fjölnismönnum

19/06/17

#2D2D33

Meistaraflokkur karla mætti Fjölni í áttunda leik Íslandsmótsins sem fram fór við frábærar aðstæður á Norðurálsvelli.

Fyrri hálfleikur var frekar rólegur framan af og það var ekki fyrr en á 19. mínútu þegar fyrsta alvöru færi leiksins kom en þá átti Stefán Teitur Þórðarson skot í þverslá eftir hornspyrnu.

Fjölnismenn ógnuðu samt meira í hálfleiknum og sköpuðu sér nokkur álitleg færi. Á 38. mínútu náðu þeir að nýta eina slíka sókn þegar Birnir Snær Ingason skoraði með lúmsku skoti.

Skagamenn gáfust þó ekki upp og á 42. mínútu tók Þórður Þorsteinn Þórðarson aukaspyrnu sem fór inn í vítateig Fjölnis. Eftir nokkurt klafs barst boltinn til Hafþórs Péturssonar sem vippaði boltanum yfir markvörð Fjölnis í netið. Staðan í hálfleik var því 1-1.

Seinni hálfleikur byrjaði svo mun betur en sá fyrri og bæði lið voru að skapa sér ágæt færi. Á 59. mínútu kemur svo vendipunktur leiksins þegar ÍA fær skyndisókn upp vallarhelming Fjölnis þar sem Tryggvi Hrafn Haraldsson var kominn einn innfyrir vörnina. Mario Tadejevic gerðist sekur um fólskubrot þegar hann tæklaði Tryggva Hrafn rétt fyrir utan vítateig mjög gróflega og fékk verðskuldað brottvísun fyrir leikbrotið.

Eftir það komust Fjölnismenn reyndar betur inn í leikinn og fengu nokkur ákjósanleg færi sem misfórust. Skagamenn fóru hægt og rólega að nýta sér liðsmuninn og bæta í sóknarleikinn eftir því sem leið á hálfleikinn.

ÍA fékk nokkur góð færi undir lokin til að skora sigurmarkið. Á 85. mínútu var Garðar Gunnlaugsson felldur þegar varnarmaður Fjölnis ýtti í bakið á honum í vítateig gestanna og krafa frá Skagamönnum um vítaspyrnu. Dómarinn ákvað að dæma ekkert nema vísa Árna Snæ Ólafssyni af varamannabekknum fyrir mótmæli en hann var í liðsstjórn í leiknum.

Skagamenn héldu samt áfram að sækja og það skilaði marki á 92. mínútu þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson átti sendingu inn í vítateig þar sem Steinar Þorsteinsson skoraði af öryggi. Fjölnismenn reyndu ákaft að jafna metin og sendu alla sína menn fram.

Á 96. mínútu fékk Fjölnir hornspyrnu sem Ingvar Þór Kale greip á endanum. Hann kom boltanum út á kant þar sem Þórður Þorsteinn Þórðarson var staðsettur. Hann sá að markvörður Fjölnis var ekki í markinu og tók skot af 60 metra færi sem endaði í tómu markinu.

Leiknum lauk því með verðskulduðum 3-1 sigri Skagamanna sem er loksins komið á sigurbraut.

Að vanda var valinn maður leiksins úr Skagaliðinu og að þessu sinni varð Arnór Snær Guðmundsson fyrir valinu. Hann fékk að launum gjafabréf fyrir tvo frá Port 9 Vínbar.

Næsti leikur er svo gegn Stjörnunni á Samsung vellinum laugardaginn 24. júní kl. 17.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content