ÍA tapaði gegn Val á Valsvellinum 3-1 í síðasta leik liðanna í riðlakeppni Lengjubikarsins 2017.
Valur var sterkari aðilinn framan af fyrri hálfleik og þeir skoruðu gott mark á 31. mínútu. Valsarar fengu auk þess fleiri marktækifæri sem þeir nýttu ekki. Skagamenn fengu fá færi í hálfleiknum sem lítið kvað að.
Mun meira jafnræði var í seinni hálfleik og Skagamenn fengu mjög góð færi sem ekki náðist að nýta. Valur skoraði þó sitt annað mark á 73. mínútu og voru ávallt ógnandi. Okkar menn gáfust ekki upp og á 83. mínútu skoraði Þórður Þorsteinn Þórðarson úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á sóknarmanni ÍA innan vítateigs Vals.
Skagamenn áttu margar góðar sóknarlotur til að jafna metin en þunnskipað var í vörninni og á lokamínútunni skoraði Valur úr skyndisókn. Leikurinn endaði því 3-1 fyrir Val.
ÍA endar í öðru sæti riðilsins með 12 stig. Mótherjar ÍA koma í ljós á laugardaginn en það gæti orðið Selfoss eða KR.
Valur 3-1 ÍA
1-0 Sigurður Egill Lárusson (´31)
2-0 Sigurður Egill Lárusson (´73)
2-1 Þórður Þorsteinn Þórðarson (´83 víti)
3-1 Sigurður Egill Lárusson (´90)