Skagamenn mættu Njarðvík í öðrum leik liðanna í Lengjubikarnum sem fram fór í Reykjaneshöll í kvöld.
Skemmst er frá því að segja fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill. ÍA átti hættulegri marktækifæri en náði ekki að nýta færin upp við mark heimamanna. Njarðvíkingar fengu fá færi í fyrri hálfleik en voru hættulegir í föstum leikatriðum.
Á 27. mínútu fékk Njarðvík einmitt aukaspyrnu og eftir klaufagang í vörn ÍA náði Theodór Guðni Halldórsson að skora með skalla. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir heimamenn.
Seinni hálfleikur hófst svo af krafti af hálfu Skagamanna sem ætluðu sér að jafna metin. Þrátt fyrir ágætar sóknarlotur var það ekki fyrr en á 67. mínútu sem ÍA náði jöfnunarmarkinu en þá skoraði Alexander Már Þorláksson með skoti eftir aukaspyrnu frá Ragnari Leóssyni.
Skagamenn sváfu þó á verðinum því Njarðvík hóf að ógna með beittum skyndisóknum og Bergþór Ingi Smárason skoraði með langskoti á 71. mínútu. ÍA náði þó aftur að jafna metin á 79. mínútu þegar Steinar Þorsteinsson skoraði með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá Hilmari Halldórssyni. Staðan orðin 2-2 og allt opið í leiknum.
Það sem eftir lifði leiks voru Skagamenn í sókn og reyndu að ná sigurmarkinu. Njarðvíkingar fengu þó allt í einu skyndisókn í uppbótartíma og varnarmenn ÍA náðu ekki að koma í veg fyrir að Arnór Björnsson kæmist innfyrir vörn Skagamanna og skora sigurmarkið í leiknum. Leikurinn endaði því 3-2 fyrir Njarðvík.