ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn töpuðu fyrir Víkingum í Ólafsvík

Skagamenn töpuðu fyrir Víkingum í Ólafsvík

29/06/18

#2D2D33

Skagamenn spiluðu í kvöld við Víkinga frá Ólafsvík í níundu umferð Inkasso-deildarinnar. Um algjöran toppslag var að ræða enda voru þetta meðal efstu liða deildarinnar svo ljóst var að ekkert yrði gefið eftir í leiknum.

Frá fyrstu mínútu leiksins var frekar hátt tempó í leiknum og bæði lið spiluðu hraðan og agaðan leik þar sem barist var um alla bolta. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 15. mínútu en þá átti Alexander Helgi Sigurðarson skot af löngu færi sem fór yfir markvörð ÍA og í markið.

Skagamenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og spilamennska liðsins var oft á tíðum með ágætum en það vantaði oft síðustu sendinguna til að koma boltanum í netið. Víkingur átti ekki mörg færi í hálfleiknum en vörn ÍA náði að bjarga þegar þörf var á. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir heimamenn.

Seinni hálfleikur var svo um margt svipaður og sá fyrri. Skagamenn sóttu meira og héldu boltanum en áttu í erfiðleikum með að skapa sér hættuleg marktækifæri. Víkingar voru meira til baka og áttu skyndisóknir sem sköpuðu stundum usla í vörn ÍA.

Á 78. mínútu náðu Víkingar svo að bæta sínu öðru marki við þegar löng sending var send innfyrir vörn ÍA. Sofandaháttur var í varnarleik Skagamanna og Gonzalo Zamorano skoraði gott mark með því að vippa boltanum yfir Árna Snæ Ólafsson markvörð ÍA og í opið markið.

Skagamenn reyndu að sækja af krafti og minnka muninn og í uppbótartíma náðist það. Þá tók Þórður Þorsteinn Þórðarson aukaspyrnu inn í vítateig Víkinga. Eftir barning barst boltinn til Hilmars Halldórsson sem náði að koma boltanum á Steinar Þorsteinsson sem skoraði með bylmingsskoti.

Eftir þetta fjaraði leikurinn út og fyrsta tap ÍA í Inkasso-deildinni staðreynd í sumar með 2-1 ósigri gegn Víkingum. Framundan er þéttur pakki í toppbaráttu deildarinnar og hvert stig verður dýrmætt.

Edit Content
Edit Content
Edit Content