Meistaraflokkur karla lék í kvöld æfingaleik við KR sem fram fór á gervigrasivellinum á KR-svæðinu.
Skemmst er frá því að segja að um hörkuleik var að ræða og gáfu Skagamenn heimamönnum ekkert eftir í leiknum. Snemma í leiknum var brotið á Steinari Þorsteinssyni innan vítateigs KR og vítaspyrna réttilega dæmd. Úr henni skoraði Garðar Gunnlaugsson af öryggi.
KR komst svo mun betur inn í leikinn og jafnaði metin þegar skammt var til hálfleiks. Bæði lið börðust mikið og fengu álitleg færi sem ekki náðist að nýta þrátt fyrir góðar tilraunir. Staðan í hálfleik var því 1-1.
Skagamenn skiptu um alla 10 útileikmenn sína í hálfleik og aðeins Skarphéðinn Magnússon var áfram í markinu. KR komst yfir þegar aðeins var liðið á seinni hálfleik en skömmu síðar var brotið á Bjarka Steini Bjarkasyni í vítateig KR og önnur vítaspyrna ÍA í leiknum var dæmd. Spyrnuna tók Andri Júlíusson og skoraði hann með góðu skoti.
KR komst svo aftur yfir þegar langt var gengið á seinni hálfleik og þrátt fyrir góðar tilraunir Skagamanna til að jafna metin tókst það ekki. Leikurinn endaði því 3-2 fyrir KR en strákarnir mega vel við una í leiknum þar sem þeir lögðu sig alla fram.