ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn náðu sér ekki á strik gegn Þrótturum

Skagamenn náðu sér ekki á strik gegn Þrótturum

13/07/18

#2D2D33

Skagamenn spiluðu í kvöld við Þróttara frá Reykjavík í 11. umferð Inkasso-deildarinnar. ÍA var í toppbaráttunni og Þróttur sat um miðja deild svo ljóst var að ekkert yrði gefið eftir í leiknum.

Skagamenn byrjuðu leikinn aðeins betur en eftir því sem leið á hann tóku Þróttarar yfir allt spil í leiknum. Þeir áttu hættulegar sóknir og komust yfir á 18. mínútu þegar Viktor Jónsson skoraði eftir klaufagang í vörn ÍA.

Aðeins sex mínútum síðar höfðu Þróttarar komist tveimur mörkum yfir en þá skoraði Daði Bergsson eftir stungusendingu frá Viktori Jónssyni. Heimamenn að spila góðan fótbolta og skapa sér færi.

Skagamenn áttu í vandræðum með að komast í takt við leikinn framan af en eftir því sem leið á hálfleikinn fóru menn að skapa sér betri færi. Það skilaði svo marki á 40. mínútu þegar Hörður Ingi Gunnarsson átti sendingu á Stefán Teit Þórðarson sem kom boltanum í netið.

Strax í næstu sókn var ÍA næstum búið að jafna metin en þá átti Steinar Þorsteinsson frábært skot sem markvörður Þróttar varði á síðustu stundu. Staðan í hálfleik 2-1 fyrir Þrótt og allt opið í leiknum.

Þróttarar byrjuðu seinni hálfleikinn svo af meiri krafti og það skilaði marki á 50. mínútu þegar Viktor Jónsson skoraði með góðu skoti eftir virkilega góðan undirbúning frá Daða Bergssyni.

Það sem eftir lifði leiks reyndu bæði lið að sækja og skapa sér góð færi. Þróttarar fengu nokkur virkilega góð færi sem misfórust en Skagamenn náðu sér engan veginn á strik og ógnuðu marki heimamanna lítið.

Það var svo á 87. mínútu sem úrslitin urðu endanlega ljós en þá skoraði Viktor Jónsson sitt þriðja mark í leiknum. Fátt markvert gerðist eftir það og Þróttarar unnu verðskuldaðan sigur á ÍA 4-1.

Edit Content
Edit Content
Edit Content