Meistaraflokkur karla sótti Grindavík heim í dag í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ en leikurinn fór fram á Grindavíkurvelli. Fjögur ár voru síðan liðin mættust síðast í bikarnum en þá unnu Grindvíkingar 4-1 svo kominn var tími á að ÍA tæki sigur gegn heimamönnum.
Fyrri hálfleikur var vægast sagt frekar rólegur. Mikil barátta var hjá báðum liðum sem höfðu nokkur áhrif á gæði fótboltans á löngum köflum. Ekki var hægt að kenna veðrinu um spilamennsku beggja liða þar sem um góðar aðstæður voru að ræða heldur var spennustigið hátt hjá leikmönnum.
Grindavíkurliðið var sterkari aðilinn framan af og skapaði sér nokkur ágæt færi sem ekki náðist að nýta. Á sama tíma voru Skagamenn frekar rólegir í tíðinni, byggðu á sterkri vörn og reyndu að skapa sér færi sem voru reyndar frekar fá. Staðan í hálfleik var því 0-0.
Skagamenn hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti og strax á 48. mínútu kom fyrsta mark leiksins þegar Bjarki Steinn Bjarkason átti góða rispu upp vinstri kantinn og gaf boltann inn í vítateig Grindavíkur. Þar var Steinar Þorsteinsson mættur og skoraði með góðu skoti.
Eftir þetta fengu strákarnir nokkur góð færi til að klára leikinn en sem fyrr mistókst að afgreiða boltann í netið. Þegar leið nær leikslokum fór ÍA að bakka meira og reyna að halda fengnum hlut. Slíkt gat boðið hættunni heim því Grindvíkingar höfðu verið frekar slakir í seinni hálfleik en fengu nú að komast betur í takt við leikinn.
Pressa Grindvíkinga jókst og það skilaði jöfnunarmarki á 79. mínútu þegar Aron Jóhannsson skoraði með góðum skalla eftir fallega sókn heimamanna. Eftir markið róaðist aðeins yfir leiknum og allt virtist stefna í framlengingu.
En á 88. mínútu kom sigurmark leiksins. Þá kom góð fyrirgjöf inn í vítateig Grindvíkinga þar sem Arnar Már Guðjónsson fékk boltann, sneri á varnarmann og skoraði með góðu skoti.
Eftir þetta reyndu heimamenn að jafna metin en þeim tókst það ekki. Skagamenn unnu því frábæran 1-2 sigur á úrvalsdeildarliði Grindvíkinga og eru komnir áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.
Er full ástæða til að óska strákunum til hamingju með virkilega góðan sigur og sterka liðsheild sem skilaði sér í dag. Viljum við líka þakka þeim fjölmörgu stuðningsmönnum ÍA sem mættu á leikinn og studdu strákana til sigurs.