Skagamenn spiluðu í kvöld við Hauka á Norðurálsvelli í þriðju umferð Inkasso-deildarinnar. ÍA hafði unnið fyrstu tvo leikina á tímabilinu en Haukar höfðu unnið einn leik og gert eitt jafntefli. Því var ljóst að um baráttuleik yrði að ræða.
Það sást snemma í fyrri hálfleik að hvorugt liðið ætlaði að gefa tommu eftir. Mikil barátta var um hvern bolta og greinilegt var að Haukar ætluðu sér að liggja til baka og sækja stig á erfiðan útivöll. Skagamenn sköpuðu sér nokkur mjög góð færi en náðu ekki að nýta það fyrr en á 30. mínútu þegar Arnar Már Guðjónsson skallaði boltann innfyrir vörn Hauka þar sem Steinar Þorsteinsson sneri af sér varnarmann og skoraði með góðu skoti.
Sóknarleikur Hauka var frekar bitlítill í fyrri hálfleik og fá marktækifæri sköpuðust sem ógnuðu vörn ÍA að einhverju leyti. Skagamenn fengu svo nokkur góð færi í kjölfarið en staðan í hálfleik var 1-0 fyrir ÍA.
Haukarnir komu sterkari inn í seinni hálfleik en sem fyrr voru það Skagamenn sem stjórnuðu ferðinni að mestu og sköpuðu sér bestu færin. Á 56. mínútu tók Hörður Ingi Gunnarsson innkast sem barst inn í vítateig Hauka þar sem Arnar Már Guðjónsson skallaði boltann aftur fyrir sig. Markvörður Hauka náði ekki að halda boltanum og Stefán Teitur Þórðarson skoraði í autt markið.
Það var svo á 66. mínútu sem ÍA gerði út um leikinn en þá fór Steinar Þorsteinsson upp hægri kantinn og gaf boltann á Stefán Teit Þórðarson sem skoraði með góðu skoti í fjærhornið.
Það sem eftir lifði leiks fengu Skagamenn nokkur ágæt færi sem misfórust. Haukar sóttu nokkuð meira undir lok leiksins og það skilaði árangri á 84. mínútu þegar Daði Snær Ingason skoraði fallegt mark með langskoti.
Í framhaldinu var leikurinn flautaður af og Skagamenn unnu frekar öruggan sigur á Haukum 3-1. Nú eru níu stig komin í hús og liðið er að spila virkilega góðan fótbolta.