Meistaraflokkur karla mætti Víking R í 21. umferð Íslandsmótsins sem fram fór við erfiðar aðstæður á Víkingsvellinum í Fossvoginum þar sem rigning og kuldi voru í stóru hlutverki.
Fyrri hálfleikur var frekar rólegur framan af og það var ekki mikið um opin færi af hálfu beggja liða, frekar var um langskot að ræða sem ógnuðu lítið. Víkingar voru mun meira með boltann en náðu ekki að skapa sér markverð færi.
Skagamenn beittu skyndisóknum og um miðjan fyrri hálfleik átti Steinar Þorsteinsson gott skot en varnarmaður Víkings bjargaði á marklínu. Skömmu síðar fékk ÍA annað gott færi en þá átti Arnar Már Guðjónsson góðan skalla sem markvörður Víkings varði virkilega vel. Eftir klafs í teignum endaði boltinn svo í þverslá marks heimamanna.
Skagamenn fengu því nokkur virkilega góð færi til að komast yfir í leiknum en það tókst ekki að nýta þau og staðan í hálfleik var því markalaus.
Í seinni hálfleik fengu svo bæði lið góð marktækifæri til að komast yfir. Víkingar komust meira inn í leikinn eftir því sem á hann og þeir áttu sín færi en vörn ÍA náði ávallt að bjarga á síðustu stundu.
ÍA fékk svo nokkur ágæt færi, sérstaklega úr föstum leikatriðum, en sem fyrr náðist ekki að koma boltanum í markið. Þegar langt var liðið á leikinn kom besta færið þegar Steinar Þorsteinsson komst einn inn fyrir vörn Víkings en skot hans fór rétt yfir markið.
Leikurinn endaði því með markalausu jafntefli og framundan er Inkasso-deildin að ári. Spilamennska liðsins hefur þó verið mun betri upp á síðkastið og það gefur vonir um að veran í fyrstu deild verði skammvin.
Við viljum þakka þeim fjölmörgu stuðningsmönnum ÍA sem hafa fjölmennt á leiki liðsins undanfarið. Stuðningur ykkar er mikilvægur þáttur í endurkomu félagsins á meðal þeirra bestu.
Næsti leikur er svo gegn Víking Ó á Norðurálsvellinum laugardaginn 30. september kl. 14.