ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn gerðu jafntefli við Víking í Inkasso-deildinni

Skagamenn gerðu jafntefli við Víking í Inkasso-deildinni

08/09/18

#2D2D33

Skagamenn spiluðu í dag við Víking Ólafsvík á Norðurálsvelli í 20. umferð Inkasso-deildarinnar. Um algjöran toppslag var að ræða enda voru þessi lið að berjast um sæti í Pepsi-deildinni svo ljóst var að ekkert yrði gefið eftir í leiknum.

Frá fyrstu mínútu leiksins var ljóst að þetta voru meðal sterkustu liða deildarinnar. Hátt tempó var í leiknum og bæði lið spiluðu hraðan og agaðan leik þar sem barist var um alla bolta.

ÍA komst svo yfir á 14. mínútu þegar Steinar Þorsteinsson tók hornspyrnu sem Stefán Teitur Þórðarson skallaði fyrir mark Víkings. Þar var Arnar Már Guðjónsson vel staðsettur og kom boltanum í netið.

Skömmu síðar fékk Albert Hafsteinsson algjört dauðafæri sem markvörður Víkinga varði virkilega vel.

Víkingar komust svo betur í takt við leikinn og á 33. mínútu fengu þeir hornspyrnu. Boltinn barst inn í vítateig ÍA og eftir nokkurn barning náði Vignir Snær Stefánsson að skora með föstu skoti.

Skagamenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og sköpuðu sér nokkur ágæt sem ekki náðist að nýta. Víkingur fékk einnig sín færi í hálfleiknum en sterk vörn ÍA náði að bjarga þegar þörf var á. Staðan í hálfleik var því 1-1.

Seinni hálfleikur var svo um margt svipaður og sá fyrri. Bæði lið spiluðu á háu tempói en þegar kom að vítateig liðanna var sóknarmönnum beggja liða fyrirmunað að koma boltanum í netið.

ÍA skapaði sér hættulegri færi í hálfleiknum, það besta kom þegar nokkuð var liðið á hálfleikinn en þá átti Jeppe Hansen gott skot að marki Víkinga sem markvörður þeirra varði vel.

Víkingur átti ekki margar sóknir í seinni hálfleik og þær náðu sjaldan að ógna marki ÍA að miklu leyti. Skagamenn voru sterkari aðilinn í hálfleiknum en þrátt fyrir ágæt marktækifæri náðist ekki að koma boltanum í netið.

Leiknum lauk því með 1-1 jafntefli og ÍA er núna í öðru sæti í Inkasso-deildinni, fimm stigum á undan Víkingum í þriðja sæti deildarinnar.

Maður leiksins var valinn Arnar Már Guðjónsson en hann fékk gjafabréf frá Nínu í verðlaun. Með honum á myndinni er Magnús Guðmundsson, formaður stjórnar KFÍA.

Edit Content
Edit Content
Edit Content