Meistaraflokkur karla mætti KR í 14. umferð Íslandsmótsins sem fram fór við hrikalega erfiðar aðstæður á Norðurálsvellinum.
Töluvert jafnræði var í leiknum framan af og lítið um færi. Mikill vindur og grenjandi rigning gerði leikmönnum afar erfitt fyrir til að skapa álitleg tækifæri. KR voru á köflum mjög líklegir en þeir misnotuðu þau færi sem þeir sköpuðu sér
Skagamenn fóru að verða líklegri og komast í álitlegar stöður eftir því sem leið á hálfleikinn. Það skilaði marki á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Árni Snær Ólafsson tók aukaspyrnu sem fór upp að vítateig KR. Boltinn fór af varnarmönnum KR og barst til Ólafs Vals Valdimarssonar sem skoraði af öryggi með því að vippa boltanum yfir markvörð KR. Staðan í hálfleik því 1-0 fyrir ÍA.
ÍA hóf svo seinni hálfleik af nokkrum krafti og skapaði sér álitleg færi en aðstæður á vellinum áttu stóran þátt í að sóknirnar misfórust stundum, t.d. áttu Tryggvi Hrafn Haraldsson og Þórður Þorsteinn Þórðarson góð skot í sömu sókninni um miðjan hálfleikinn sem markvörður KR varði vel.
KR voru öflugri í seinni hálfleiknum og nýttu vindinn vel. Þeir áttu fjölda sókna og sköpuðu sér mörg ágæt færi sem varnarmenn ÍA náðu að bjarga á síðustu stundu.
Á 87. mínútu fékk KR aukaspyrnu af um 35 metra sem Óskar Örn Hauksson tók. Vindurinn hafði áhrif á stefnu boltans sem skoppaði framhjá leikmönnum beggja liða áður en hann skoppaði loks upp í þaknetið hjá ÍA, óverjandi fyrir Árna Snæ Ólafsson sem hafði þó hendur á boltanum.
Nú var staðan orðin 1-1 og bæði lið reyndu að skora sigurmarkið. Á lokamínútu leiksins gerðu Skagamenn tilkall til vítaspyrnu þegar boltinn fór í hendi varnarmanns KR þegar hann renndi sér fyrir sendingu frá Halli Flosasyni en dómarinn lét sér fátt um finnast og lét leikinn halda áfram.
Í uppbótartíma náði KR að skora en markið var réttilega dæmt af þar sem brotið var á Árna Snæ Ólafssyni markverði í aðdraganda marksins. Leikurinn endaði því 1-1 og miklar framfarir í leiknum frá síðasta leik en sárgrætilegt að missa unnin leik í jafntefli.
Að vanda var valinn maður leiksins úr Skagaliðinu og að þessu sinni varð Hallur Flosason fyrir valinu. Hann fékk að launum gjafabréf frá Ozone og 66N húfu.
Næsti leikur er svo gegn Grindavík á Grindavíkuvelli mánudaginn 14. ágúst kl. 18.