ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn gerðu jafntefli við HK í toppslag Inkasso-deildarinnar

Skagamenn gerðu jafntefli við HK í toppslag Inkasso-deildarinnar

24/08/18

#2D2D33

Skagamenn spiluðu í kvöld við HK á Norðurálsvelli í 18. umferð Inkasso-deildarinnar. Um algjöran toppslag var að ræða enda voru þetta tvö efstu lið deildarinnar svo ljóst var að ekkert yrði gefið eftir í leiknum.

Frá fyrstu mínútu leiksins var ljóst að þetta voru meðal sterkustu liða deildarinnar. Hátt tempó var í leiknum og bæði lið spiluðu hraðan og agaðan leik þar sem barist var um alla bolta.

Skagamenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og sköpuðu sér nokkur ágæt sem ekki náðist að nýta. HK fékk einnig sín færi í hálfleiknum en sterk vörn ÍA náði að bjarga þegar þörf var á.

Það var þó ekki fyrr en á lokamínútu fyrri hálfleiksins sem besta færi leiksins kom en þá braut markvörður HK á Stefáni Teiti Þórðarsyni í vítateig HK og vítaspyrna dæmd. Spyrnuna tók Jeppe Hansen en Arnar Freyr Ólafsson markvörður HK náði að verja og staðan í hálfleik því markalaus.

Seinni hálfleikur var svo um margt svipaður og sá fyrri. Bæði lið spiluðu á háu tempói en þegar kom að vítateig liðanna var sóknarmönnum beggja liða fyrirmunað að koma boltanum í netið.

ÍA skapaði sér hættulegri færi í hálfleiknum, það besta kom um miðjan hálfleikinn þegar brotið var á Ólafi Val Valdimarssyni innan vítateigs HK og önnur vítaspyrna dæmd. Að þessu sinni tók vítaspyrnuna Vincent Weijl en markvörður HK gerði sér lítið fyrir og varði sína aðra vítaspyrnu í leiknum.

HK átti ekki margar sóknir í seinni hálfleik og þær náðu sjaldan að ógna marki ÍA að miklu leyt. Skagamenn voru sterkari aðilinn í hálfleiknum en þrátt fyrir ágæt marktækifæri náðist ekki að koma boltanum í netið.

Leiknum lauk því með markalausu jafntefli og ÍA er enn í efsta sæti í Inkasso-deildinni, fimm stigum á undan þriðja sæti deildarinnar.

Maður leiksins var valinn Arnar Már Guðjónsson en hann fékk gjafabréf frá Olís í verðlaun. Með honum á myndinni er Heimir Fannar Gunnlaugsson, stjórnarmaður í KFÍA.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content