Meistaraflokkur karla mætti Fjölni í nítjándu umferð Íslandsmótsins sem fram fór við ágætar aðstæður á Extra vellinum í Grafarvogi.
Fyrri hálfleikur var frekar rólegur framan af og það var ekki mikið um opin færi af hálfu beggja liða, frekar var um langskot að ræða sem ógnuðu lítið. Fjölnismenn voru mun meira með boltann en náðu ekki að skapa sér markverð færi.
Skagamenn beittu skyndisóknum en náðu ekki að nýta þau hálffæri sem sköpuðust. Undir lok hálfleiksins virtist þó vera brotið á leikmanni ÍA í vítateig Fjölnis í hornspyrnu. Skagamenn heimtuðu réttilega vítaspyrnu en dómari leiksins lét leikinn halda áfram.
Staðan í hálfleik var því 0-0 í frekar tilþrifalitlum leik þar sem baráttan var í fyrirrúmi.
Fjölnismenn hófu seinni hálfleikinn af krafti og það skilaði marki á 49. mínútu þegar Ólafur Valur Valdimarsson varð fyrir því óláni að skora klaufalegt sjálfsmark með skalla sem fór framhjá Árna Snæ Ólafssyni í marki ÍA.
Á 53. mínútu kom svo jöfnunarmarkið þegar Ólafur Valur Valdimarsson átti sendingu inn í vítateig Fjölnis þar sem Þórður Ingason, markvörður Fjölnis, greip boltann en missti hann strax aftur út í teig. Þar var Stefán Teitur Þórðarson vel staðsettur og skoraði af öryggi með góðu skoti.
Eftir markið kom mikill kraftur í Skagamenn og þeir fóru að skapa sér mjög góð færi. Á 60. mínútu kom annað mark ÍA þegar Ólafur Valur Valdimarsson átti sendingu inn í vítateig þar sem Steinar Þorsteinsson kom á ferðinni og skoraði gott mark með föstu skoti.
Fjölnismenn komust svo meira inn í leikinn og áttu virkilega góð færi, t.d. skot í þverslánna. Á 75. mínútu kom jöfnunarmarkið þegar Þórir Guðjónsson skoraði með skalla eftir klaufagang í vörn ÍA.
Það sem eftir lifði leiks reyndu bæði lið að skora sigurmarkið. Skagamenn sóttu grimmt og þá náði Fjölnir mörgum skyndisóknum sem hefði getað leitt til marks. Á endanum náði hvorugt liðið að skora og leikurinn endaði því 2-2.
Skagamenn eru nú í erfiðri stöðu í deildinni og sjö stigum frá öruggi sætu í deildinni þegar níu stig eru í boði. Þó er ekki annað í boði en halda í vonina og stefna að sigri í hverjum leik.
Við viljum þakka þeim fjölmörgu stuðningsmönnum ÍA sem fjölmenntu í Grafarvoginn í dag. Stuðningur ykkar skiptir gríðarlega miklu máli í baráttunni nú um mundir.
Næsti leikur er svo gegn Stjörnunni á Norðurálsvellinum sunnudaginn 17. september kl. 16.