Meistaraflokkur karla mætti Leikni R í átta-liða úrslitum Borgunarbikarsins sem fram fór við ágætar aðstæður á Leiknisvelli.
Leiknir hóf leikinn af krafti og ætlaði sér að berjast á fullu í leiknum þó þeir væru deild neðar en ÍA. Þeir sköpuðu sér nokkur ágæt færi í fyrri hálfleik og Leiknir komst yfir á 24. mínútu þegar Arnór Snær Guðmundsson skoraði sjálfsmark með skalla eftir sendingu inn í vítateig ÍA.
Skagamenn komust meira í takt við leikinn eftir markið og fengu hálffæri í hálfleiknum en áttu í erfiðleikum með að skapa sér dauðafæri. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir Leikni.
Seinni hálfleikur hófst frekar rólega en ÍA fór að eiga meira í leiknum eftir því sem á leið. Á 61. mínútu átti Hallur Flosason skot sem varnarmaður varði með hendi inni í vítateig Leiknis. Vítaspyrna var dæmd og úr henni skoraði Garðar Gunnlaugsson af öryggi.
Eftir því sem leið á seinni hálfleik áttu Skagamenn mörg úrvalsfæri sem á einhvern ótrúlegan hátt náðist ekki að nýta. Leiknismenn beittu skyndisóknum sem sköpuðu nokkra hættu en þeir náðu ekki að klára þau. Leiknum lauk því 1-1 og framlenging tók við.
Leiknir hóf framlenginguna af krafti og úr einni sókninni náði Elvar Páll Sigurðsson að leika á varnarmenn ÍA og skora með góðu skoti á 96. mínútu. Það sem eftir lifði af framlengingunni sóttu Skagamenn mikið og fengu nokkur góð færi sem náðist ekki að klára. Leiknir vann því leikinn 2-1 og komst áfram í undanúrslitin í bikarnum.
Næsti leikur ÍA er svo gegn Víking R mánudaginn 10. Júlí kl. 19:15 á Norðurálsvelli.