‘- ÍA 99 Höttur 84
Skagamenn tóku í kvöld á móti ókrýndum deildarmeisturum Hattar í lokaleik deildarinnar. Höttur hefur þegar tryggt sér miða beint upp í Dominos en ÍA er á leiðinni í úrslitakeppnina.
Það var ekki að sjá á Hattarmönnum í leiknum að þeir hefðu í raun ekki að neinu að keppa í leiknum öðru en heiðurnum, léku oft á tíðum mjög harðan leik og mat margra í stúkunni að dómararnir hafi í raun verið heppnir að missa leikinn ekki í algjöra vitleysu, en sem betur fer gerðist það ekki. Skagamenn gáfu heldur ekki tommu eftir enda baráttan um niðurröðun í úrslitakeppninni gríðarlega hörð.ÍA byrjaði leikinn betur en Höttur var aldrei langt undan, staðan að loknum fyrsta leikhluta var 18-15 og skagamenn bættu heldur í þegar í annan leikhluta var komið og staðan í hálfleik ÍA 42 Höttur 31. Jafnræði var svo með liðunum í þrija leikhluta sem Höttur vann með einu stigi svo staðan fyrir loka leikhlutann var 68-58.Fjóði leikhlutinn var skrítinn, Hattarmenn brutu mikið og tóku skagamenn hvorki fleiri né færri en 40 vítaskot í leiknum, þar af tók Zachary Jamarco Warren 19 og Fannar Helgason 11. Gestirnir frá Egilsstöðum náðu aldrei að ógna forystu Akurnesinga sem lönduðu á endanum öruggum 99-84 sigri.
Fremstur í stigaskorunn hjá heimamönnum, sem oft áður, var Zachary Jamarco Warren með 41 stig, auk þess að taka 6 fráköst og gefa 4 stoðsendingar. Næstur á eftir honum kom Fannar Freyr Helgason með enn eina tvennuna á tímabilinu 21 stig og 16 fráköst auk 3ja stoðsendinga.Hjá gestunum var Tobin Carberry með tvennu uppá 31 stig og 13 fráköst auk 4ra stoðsendinga. Viðar Örn Hafsteinsson kom svo á eftir honum með 18 stig á um 11 mínútum en hann útilokaði sig hratt frá leiknum með 5 villur.
Nánari tölfræði úr leiknum má nálgast hér.
Myndir frá leiknum koma svo inn á Facebooksíðu okkar á næstu klukkutímum.
Í leikslok voru Hattarmenn krýndir deildarmeistarar og afhenti Guðbjörg Norfjörð, varaformaðu KKÍ, austanmönnum deildarmeistaratitilinn.
Því er magnaðri deildarkeppni lokið og úrslitakeppni framundan hjá Hamri, FSu, Val og ÍA. Miðað við leiki kvöldsins þá endar Hamar í 2. sæti deildarinnar með 28 stig. FSu, Valur og ÍA koma svo jöfn í 3.-5. sæti öll með 26 stig. Því þarf að fara í innbirðis viðureignir þessara liða. FSu vann tvo á móti einum sigri ÍA, ÍA vann tvo á móti einum sigri Vals og Valur vann tvo á móti einum sigri FSu þannig að enn eru öll liðin jöfn. Því þarf að fara í skoruð stig og þar koma FSu menn best út með 1.877 stig skoruð, Valur næstir með 1.728 stig og ÍA þar á eftir með 1.624 stig.Niðurstaðan er því sú að FSu tekur 3. sætið, Valur 4. sætið og ÍA 5. sætið. Þetta þýðir að ÍA mætir Hamri og hefur Hamar heimaleikjaréttinn og FSu mætir Val og hefur FSu heimaleikjaréttinn. Þess má geta að Valur hefur eins og áður sagði unnið FSu tvisvar gegn einum sigri FSu í vetur og ÍA hefur unnið Hamar tvisvar gegn einum sigri Hamars í deildinni þannig að búast má við hörku viðureignum.Fyrsti leikurinn í rimmu Hamars og ÍA verður í Hveragerði fimmtudaginn 26. mars og leikur tvö verður svo á Vesturgötunni sunnudaginn 29. mars en nákvæm tímasetning er ekki orðin staðfest. Þurfi oddaleik verður hann spilaður í Hveragerði þriðjudaginn 31. mars.
Til gamans má geta að síðast þegar ÍA fór í úrslitakeppni 1. deildar, tímabilið 2011/2012 mættum við einmitt Hamri í fyrstu umferð, þeir komu inn sem liðið í 2. sæti og við sem liðið í 5. sæti líkt og núna. Svo fór að ÍA sópaði þeim út 2-0 en tapaði svo gegn Skallagrími í oddaleik í úrslitarimmunni.
Mynd Jónas H. Ottósson