Komdu og hjálpaðu Akurnesingum og ÍA að ná perlubikarnum til sín!
Mánudaginn 2. júlí milli kl. 15 – 19 í hátíðarsalnum í Íþróttabandalagi Akranes, Jaðarsbökkum, ætlar Íþróttabandalag Akrness að reyna við Perlubikarinn svokallaðan. En Perlubikarinn hlýtur það íþróttafélag og/eða bæjarfélag sem nær að perla, á fjórum klukkustundum, flest armbönd til styrktar Krafti.
Með því að taka þátt í viðburðinum geta Akurnesingar og ÍA átt möguleika á að hreppa perlubikarinn en til þess þarf að perla meira en 2308 armbönd á fjórum tímum en það met settu Sunnlendingar 20. júní sl. Sunnlendingar náðu þá bikarnum af Akureyringum og munaði aldeilis mjóu þar sem Akureyringar voru með 2302 perluð armbönd. HK-ingar reyna við bikarinn 27. júní en Perlubikarinn hljóta þeir viðburðahaldarar sem ná að perla sem flest armbönd.
Armböndin sem um ræðir eru í fánalitunum og eru þau seld til stuðnings Krafti og sýna einnig samstöðu með íslenska fótboltalandsliðinu á HM. Armböndin eru með áletruninni „Lífið er núna“ og eru auðveld í samsetningu svo allir geta tekið þátt, börn sem fullorðnir.
Við hvetjum alla Akurnesinga og iðkendur, þjálfara og forráðamenn aðildarfélaga ÍA til að taka þátt í skemmtilegu verkefni með okkur. Öll armböndin eru perluð í sjálfboðavinnu og því mikil hugsjón bakvið hvert armband. Allur ágóði af sölu armbandanna rennur til Krafts – stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur og er hægt að kaupa armböndin líka strax á staðnum.
Þetta er skemmtileg stund fyrir alla fjölskylduna og tilvalið tækifæri að láta gott af sér leiða og að sjálfsögðu verður heitt á könnunni!
KOMIÐ OG PERLIÐ AF KRAFTI