Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá mörgu en með sigri Fjölnis á FH síðastliðið fimmtudagskvöld var það endanlega staðfest að Knattspyrnufélag ÍA leikur ekki í efstu deild á næsta tímabili, hvorki stelpurnar né strákarnir. En við höldum ótrauð áfram og stefnum á að koma sterkari til baka, eins og Magnús Guðmundsson, formaður félagsins, kom inná í færslu á facebooksíðu félagsins.
Það eru enn tveir leikir eftir á tímabilinu, í þeim fyrri heimsækja strákarnir okkar Víking Reykjavík í Víkina. Sá leikur fer fram á morgun, sunnudaginn 24. september klukkan 14:00.
Víkingar hafa að einhverju leiti sogast inn í fallslaginn í sumar en sitja nú í 7. sæti deildarinnar og eru svo gott sem hólpnir. Þegar horft er til innbyrðisviðureigna liðanna hafa Skagamenn klárlega yfirhöndina, í síðustu 16 viðureignum liðanna hafa Víkingar aðeins unnið 1 sigur, Skagamenn 8 og 7 sinnum hafa liðin gert jafntefli. Enginn þessara leikja hefur verið markalaus, öll jafnteflin 1-1, og að meðaltali skoruð tæplega 2,5 mörk í hverjum leik.
Strákarnir okkar fara í þessa leiki til að vinna, mætum öll í Víkina og styðjum þá í því verkefni.
Áfram ÍA!